Til marks um að bardaginn um bóluefnin sé hafinn fyrir alvöru er sú ákvörðun ítalskra stjórnvalda að stöðva fyrirhugaða sendingu 250 þúsund skammta af bóluefni til Ástralíu. Evrópusambandið gerir ekki athugasemdir við ákvörðunina. Enda var hún byggð á fyrirkomulagi sem framkvæmdastjórn þess kynnti til sögunnar í janúar: Að sækja þyrfti um sérstakt leyfi til stjórnvalda í viðkomandi ríki innan sambandsins áður en bóluefni væri flutt út.
Sú ákvörðun sambandsins snéri fyrst og fremst að lyfjafyrirtækinu AstraZeneca. Skærur brutust út á milli framkvæmdastjórnarinnar og fyrirtækisins eftir að það tilkynnti að minna yrði til skiptanna af bóluefninu innan ESB en áætlanir höfðu upprunalega gert ráð fyrir. Stjórnin sagði það samningsbrot. Sérstaklega í ljósi þess að Bretar og fleiri ríki fengju alla sína skammta þrátt fyrir framleiðsluerfiðleika. Fyrirtækið benti hins vegar á að ESB hefði dregið lappirnar í samningagerðinni.
Og það er einmitt bóluefni frá því fyrirtæki sem ítölsk stjórnvöld sitja nú á og neita að heimila að sent verði til Ástralíu eins og til stóð. Bóluefni sem framleitt er í verksmiðjum AstraZeneca á Ítalíu. Framkvæmdastjórn ESB getur ógilt þá ákvörðun en ekki er útlit fyrir að það verði gert. Enda gerðu Ítalir, að því er heimildir Politico og fleiri fjölmiðla herma, stjórninni fyrirætlanir sínar ljósar fyrr í vikunni og eftir skoðun tók hún undir með þeim: Hætta væri á að svo stór sending til Ástralíu myndi brjóta í bága við bóluefnasamninga sem ESB hefur gert.
Þetta er ekki í samræmi við þau svör sem João Aguiar Machado, sendiherra ESB hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, gaf fyrr í vikunni. „Frá því að fyrirkomulagið tók gildi þann 1. febrúar höfum við fengið 150 beiðnir um útflutning [á bóluefni]. Við höfum heimilað þær allar. Ég endurtek, allar.“
Ekki viðkvæmt ríki
Það var viðskiptablaðið Financial Times sem fyrst greindi frá ákvörðun Ítala. Í frétt blaðsins í gærkvöldi kom fram að ástæður hennar væru m.a. þær að Ástralía teldist ekki „viðkvæmt“ ríki hvað faraldurinn varðar. Þar sé hann undir nokkuð góðri stjórn í augnablikinu. Í öðru lagi þótti sendingin of stór, 250 þúsund skammtar, sem krefjist sérstakrar athugunar.
Viðbrögð Ástrala hafa hingað til verið kurteisisleg. Sjálfir eru þeir að hefja, ef allt gengur að óskum, nokkuð umfangsmikla framleiðslu bólefna á næstunni. Þeir hafa þó vinsamlega beðið framkvæmdastjórn ESB að endurskoða ákvörðunina. Ef lokasvarið verður hið sama gæti annað hljóð komið í strokkinn.
Evrópusambandið hafði veðjað nokkuð stórt á bóluefni AstraZeneca sem þróað var af vísindamönnum við Oxford háskóla. Þeir voru þeir fyrstu til að ljúka við fyrstu fasa rannsókn sína, sem lofuðu góðu, þó að bæði Pfizer og Moderna hafi svo tekið fram úr í þróunarferlinu og fengið markaðsleyfi á undan.
Hindranir í framleiðslu bóluefnis AstraZeneca urðu hins vegar til þess að í stað þess að afhenda 100 milljón skammta til ESB á fyrsta ársfjórðungi verða þeir nær 40 milljónum.
Í ljósi alls þessa kemur það ekki öllum á óvart að það hafi verið útflutningur af bóluefni AstraZeneca sem hafi verið stöðvaður en ekki einhverra annarra framleiðenda.
En ef aðrir beita sömu brögðum?
Útflutningshömlurnar sem ESB setti á njóta stuðnings leiðtoga ríkja sambandsins. Þeir hafa þó sumir hverjir vakið athygli framkvæmdastjórnarinnar á því að fleiri, t.d. Bandaríkin, gætu ef út í það er farið, beitt svipuðum meðulum til að hindra útflutning bóluefna.
Um þetta er m.a. fjallað í bréfi sem Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sendi Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í febrúar. Áhyggjurnar snúa að nýju bóluefni fyrirtækisins Johnson & Johnson en þess er vænst að Evrópska lyfjastofnunin veiti því markaðsleyfi á fundi sínum 11. mars. Það gæti þá komið á markað í apríl.
Bóluefni Johnson & Johnson verður m.a. framleitt í verksmiðju í Belgíu en í ljós hefur komið að fyrirtækið ætlar sér að klára framleiðsluferlið, setja efnið í lyfjaglösin, handan hafsins – í Bandaríkjunum. Frederiksen er meðal þeirra sem telja þetta fyrirkomulag bjóða hættunni heim. Að stjórnvöld í Bandaríkjunum geti þá heft dreifingu þess til Evrópu. Og gera þurfi eitthvað í málinu til að tryggja hagsmuni Evrópulanda.
Af þessu þarf ekki að hafa áhyggjur, hafa Bandaríkjamenn síðar sagt.
Harðlega hefur verið gagnrýnt hversu langan tíma tók ESB að klára samninga við lyfjafyrirtækin. Það gerðist í ágúst hvað AstraZeneca varðar en mörgum vikum fyrr hafði fyrirtækið gengið til samninga við Bretland og fleiri ríki. Sama var uppi á teningnum varðandi samninga við Moderna og Pfizer. Ekki var gengið frá þeim fyrr en í nóvember.
Þetta á sér ýmsar skýringar sem sumir hafa þó hrist höfuðið yfir. Þannig er talið að samninganefnd ESB hafi verið umhugað um að ná niður verðum og tryggja að lyfjafyrirtækin – ekki sambandið – yrði ábyrgt fyrir áhrifum mögulegra aukaverkana bóluefnanna. Á meðan einstök ríki gengu hratt og örugglega til samninga og pöntuðu risa sendingar ákvað samninganefnd ESB að „prútta eins og hún væri á útsölutorgi“ á meðan versti veirufaraldur í meira en heila öld er að ganga yfir heimsbyggðina, líkt og það er orðað í fréttaskýringu Spiegel um samningaviðræðurnar.