Steinunn Böðvarsdóttir, sérfræðingur á hagdeild VR, segir atvinnulýðræði meðal starfsmanna vera víðtækara á öllum öðrum Norðurlöndunum. Að mati hennar er mikilvægt að íslenskt atvinnulíf skoði allar leiðir til að styrkja stöðu fyrirtækja og starfsfólks þess, í ljósi þeirra breytinga sem fjórða iðnbyltingin mun hafa á vinnumarkaði á næstu árum.
Þetta skrifar Steinunn í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn. Í grein sinni fer hún yfir stöðu atvinnulýðræðis, sem felur í sér áhrif starfsmanna á ákvarðanir sem varða vinnustaði þeirra, hérlendis og í nágrannalöndum Íslands.
Samkvæmt henni hefur lýðræði á vinnustöðum lítið breyst hér á landi, þrátt fyrir að meira en hálf öld sé frá því að fyrsta tillagan var lögð fram á þingi. Á meðan hefur meirihluti aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og öll hin Norðurlöndin gert starfsfólki kleift að kjósa fulltrúa til setu í stjórn eigin fyrirtækja.
Í Danmörku hefur starfsfólk rétt til fulltrúa í stjórnir fyrirtækja þar sem að minnsta kosti 35 vinna, en samsvarandi lágmark eru 25 starfsmenn í Svíþjóð. Í Noregi þurfa starfsmenn fyrirtækjanna að minnsta kosti að verða 30, en þar í landi hefur svokallaður meðákvörðunarréttur, verið innleiddur í stjórnarskrá landsins og segir Steinunn að sú hugmyndafræði sé grundvallaratriði í norsku atvinnulífi.
Mikilvægt í ljósi framtíðarinnar
Steinunn segir margar leiðir vera færar til að auka atvinnulýðræði hér á landi. Til dæmis megi binda í lög eða kjarasamninga rétt starfsfólks til að stofna svokallaða samráðsnefnd, sem sé vettvangur fyrir upplýsingagjöf, samráð og samstarf meðal starfsmanna. Slík nefnd gæti verið einungis fyrir starfsfólk eða verið sameiginlegur vettvangur þeirra og atvinnurekenda.
„Fjórða iðnbyltingin gerir það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að íslenskt atvinnulíf skoði allar leiðir til að styrkja stöðu fyrirtækja og starfsfólks þess,“ segir Steinunn í greininni sinni. „Lýðræði á vinnustað er öflug leið til að efna til samtals og gefa starfsfólki sjálfsagða aðkomu að ákvörðunum og hvernig best er að aðlaga störfin og fyrirtækin að þeim breytingum sem þessi bylting hefur í för með sér. Ávinningur tæknibyltinga og framþróunar á að skila sér bæði til hluthafa og starfsfólks fyrirtækja.“