Í síðustu viku voru rétt rúmlega 4 þúsund ófullbúnar íbúðir á Íslandi og hefur þeim fækkað um 1.700 frá byrjun síðasta árs. Leita þarf aftur til áramótanna 2016 og 2017 til að finna jafnlítinn fjölda ófullbúinna íbúða, en á síðustu fjórum árum hefur þeim fjölgað í takt við aukna virkni á byggingarmarkaði. Þetta kemur fram í nýrri fasteignagátt þjóðskrár, þar sem nálgast má tölur um fjölda fullbúinna og ófullbúinna íbúða.
Mikil fjölgun síðustu árin
Frá árinu 2006 hefur fullbúnum íbúðum að meðaltali fjölgað um 1.700 á hverju ári. Á síðustu fjórum árum hefur fjölgunin þó verið nokkuð yfir þessu meðaltali og var hún mest á síðasta ári, þegar fullbúnum íbúðum fjölgaði um tæplega 3.400 talsins.
Á sama tíma hefur fjöldi ófullbúinna íbúða einnig fjölgað, úr 3.900 í lok árs 2016 í 5.800 árið 2019. Þetta var mesti fjöldi ófullbúinna íbúða sem mælst hafði í lok árs frá því í fjármálakreppunni árið 2009, en þá voru 6.500 íbúðir ókláraðar á landinu. Þróunina má sjá á mynd hér að neðan.
Búast við minnkandi framboði
Samkvæmt tölum Hagstofu tæplega tvöfaldaðist íbúðafjárfesting á þessu tímabili, þótt tekið sé tillit til verðbólgu. í fyrra lækkaði hún svo örlítið aftur. Samkvæmt fasteignagáttinni stórfækkaði einnig ófullbúnum íbúðum í fyrra, en þær voru fjórðungi færri við síðustu áramót heldur en í byrjun árs 2020. Þessum íbúðum hefur svo haldið áfram að fækka það sem af er ári, en í þessari viku voru þær um 300 færri en þær voru í byrjun árs.
Þessi þróun er í samræmi við ályktanir í nýlegri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um stöðu og þróun mála á íbúðamarkaði í ár. Þar var búist við miklum samdrætti á byggingarmarkaði, en samkvæmt stofnuninni er hætt við að framboð nýrra eigna dragist saman á næstu árum vegna þess. Verði þessi samdráttur viðvarandi býst HMS við að óuppfyllt íbúðaþörf muni aukast á næstunni.
Gögn fasteignagáttarinnar eru einnig í samræmi við síðustu íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins (SI) í september í fyrra. Í þeirri talningu sást að mikill samdráttur var á óuppfylltum íbúðum, sér í lagi á íbúðum á fyrstu byggingarstigum. Samtökin bjuggust þá við að fullbúnum íbúðum muni fækka í ár og á næsta ári.
Árin eftir hrun víti til varnaðar
HMS varar við miklum samdrætti í byggingariðnaði í skýrslu sinni, í ljósi þess hve langan tíma það gæti tekið fyrir byggingariðnaðinn að ná upp fullum afköstum aftur og skila nýjum íbúðum á markaðinn.
Samkvæmt stofnuninni var iðnaðurinn lengi að ná aftur vopnum sínum í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008. Eftir margra ára vanfjárfestingu myndaðist svo íbúðaskortur samhliða skörpum verðhækkunum þegar eftirspurn eftir þeim tók að aukast aftur vegna komu fleiri ferðamanna til landsins. Í því umhverfi versnuðu möguleikar heimila til að verða sér úti um húsnæði á fasteigna- og leigumarkaði, samkvæmt skýrslu HMS.