Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir fulltrúa flokksins í stjórn Íslandspósts hafa gegnt mikilvægu hlutverki í að bæta rekstur félagsins, verið gagnrýninn og veitt aðhald. Hins vegar hafi Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipt honum út fyrir undirmann sinn í fjármálaráðuneytinu eftir að hafa beitt Viðreisn þrýstingi um að finna annan stjórnarmann.
Viðskiptablaðið greindi frá því síðastliðinn föstudag að Thomasi Möller, fulltrúa Viðreisnar í stjórn Íslandspósts, hafi verið hent út úr stjórn félagsins á aðalfundi þess. Meirihluti stjórnar félagsins hefur innihaldið fulltrúa frá ríkisstjórnarflokkunum, á meðan stjórnarandstöðuflokkarnir hafi skipt öðrum fulltrúum á milli sín. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var þrýst á tvo flokka til að skipta út stjórnarmönnum sínum.
Í stöðuuppfærslu á Facebook greindi Þorgerður Katrín frá því að Bjarni hafi viljað ráða því hver yrði fulltrúi Viðreisnar í stjórn Póstsins. Þegar ekki var orðið við þeirri ósk og því haldið til streitu að Viðreisn myndi áfram skipa Thomas í stjórn, hafi honum verið hent út og undirmaður Bjarna í fjármálaráðuneytinu settur inn í staðinn.
Samkvæmt Þorgerði Katrínu hefur Thomas sinnt stjórnarsetu sinni af alúð. Hann hafi gegnt mikilvægu hlutverki í að bæta rekstur Íslandspósts og hagræða síðustu árin verið gagnrýninn og veitt fyrirtækinu aðhald í þágu gagnsæis, samkeppnissjónarmiða, þjónustu og almannahagsmuna.
Enn fremur sagði hún það ekki hafa farið fram hjá neinum að það séu erfiðleikar við stjórnun Íslandspósts. Þessi vandamál séu hins vegar á ábyrgð stjórnenda og meirihluta stjórnmálaflokka en skrifist ekki á einn fulltrúa minnihlutans á Alþingi. „Gamla Ísland var að hringja,“ bætti hún við.