Álagið er mikið á starfsfólki flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sérstaklega á sunnudögum þegar að meðaltali 22.000 manns fara í gegnum húsið. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segist þegar merkja um 20 prósent fjölgun ferðamanna milli ára í júlí. Ferðafólki á leið í gegnum Leifsstöð hefur fjölgað um 29 prósent frá áramótum, miðað við sama tímabil í fyrra.
Aukning ferðamanna í júní sé miðað við júní í fyrra var 25 prósent. Ferðamálastofa birti tölur yfir aukninguna í byrjun júlí. Ferðamönnum hefur fjölgað alla mánuði ársins miðað við árið áður um 20 til 36 prósent, eða að jafnaði um 29 prósent. Bara í júní fóru 137.000 ferðamenn um flugstöðina. Guðni segir einnig mikla aukningu í júlí og telur hana vera um 20 prósent.
Til þess að mæta þessum aukna straumi ferðamanna í gegnum flugstöðina hér á Íslandi hefur Isavia ráðist umfangsmiklar endurbætur og stækkanir í Leifsstöð. Nú er búið að reisa heila nýja álmu sem er um 5.000 fermetrar að flatarmáli. Hún er að sögn Guðna tilbúin að utan en talverð vinna á eftir að fara fram við innréttingar.
Áætluð verklok eru í maí 2016 eins og lagt var upp með. Flugstöðin var fyrir um 56.000 fermetrar svo verið er að stækka hana um tæplega tíu prósent. Framkvæmdin kostar um það bil 2,6 milljarða íslenskra króna. Stækkunin er yst í flugstöðinni eða á svæðinu sem þjónar farþegum á leið til eða fra löndum utan Schengen.
Þá er einnig unnið að stækkun komusalarins um 700 fermetra. Þar á að fjölga farangursbeltum og gera aðstöðu fyrir aftan tollhliðin betri fyrir aðstandendur ferðalanga.