Á greiðsluseðlum 365 vegna sérstakra áskriftarpakka, er ekki gert ráð fyrir virðisaukaskatti vegna fjarskiptaþjónustu, sem innifalin er "endurgjaldslaus" í tilboðunum. Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt er það óheimilt, og gildir þá einu þó skattskyld þjónusta sé veitt án endurgjalds.
Ljóshraðanet og heimasími fylgir á 0 kr.
Fjölmiðlasamsteypan 365 auglýsir fimm áskriftartilboð, svokallaða tilboðspakka, á heimasíðu sinni þar sem fullyrt er að ljóshraðanet og heimasími fylgi með í tilboðinu á núll krónur. Pakkarnir sem um ræðir eru Skemmtipakkinn, Sportpakkinn, Stóri pakkinn, Risa pakkinn og Enski pakkinn. Skemmtipakkinn er ódýrastur, kostar 8.490 krónur á mánuði, en Risa pakkinn kostar mest, eða 23.990 krónur á mánuði.
Kjarninn hefur undir höndum greiðsluseðil vegna áskriftar að Skemmtipakka 365. Þar ber upphæðin sem er til innheimtu 8.490 sjö prósenta virðisaukaskatt, sem útleggst á rúmar 555 krónur. Það er að hluta til í samræmi við skattalög, enda bera afnotagjöld hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva sjö prósenta virðisaukaskatt. Fjarskiptaþjónusta ber hins vegar 25,5 prósenta virðisaukaskatt, en hvergi er minnst á fjarskiptaþjónustuna sem innifalinn er í pakkatilboðinu, enda þjónustan "ókeypis" samkvæmt tilboðinu.
Hér má sjá hvar 365 innheimtir sjö prósenta virðisaukaskatt í samræmi við skattprósentu vegna sjónvarpsáskriftar. Fjarskiptaþjónustan er hins vegar hvergi sjáanleg á greiðsluseðlinum.
Þegar gefinn er út reikningur vegna söluvöru sem ber að hluta 25,5 prósenta virðisaukaskatt en að hluta sjö prósenta virðisaukaskatt á að aðgreina söluna eftir skatthlutföllum þannig að heildaververð vöru og þjónustu, ásamt virðisaukaskatti, komi sérstaklega fram vegna hvors skatthlutfalls. Er kveðið á um þetta í lögum um virðisaukaskatt.
Skiptir engu þó skattskyld þjónusta sé afhent án endurgjalds
Selji þjónustuaðili, án sérstakrar sundurliðunar á sölureikningi, skattskyldar vörur eða þjónustu sem bera ýmist 25,5 eða sjö prósenta virðisaukaskatt inn í órjúfanlegri heild, til dæmis tilboðspakka, og kaupandi hefur ekki val um að kaupa vörurnar í sitt hvoru lagi, ber að leggja virðisaukaskatt á heildina í samræmi við þá vöru eða þjónustu innan tilboðspakkans sem ber hæsta virðisaukaskattinn. Ekki er skýrt kveðið á um þetta í skattalöggjöfinni, heldur er þetta túlkun sem leidd er af meginreglunni að skattskyldar vörur og þjónusta beri almennt 25,5 prósenta virðisaukaskatt.
Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt skiptir engu þó 365 sé beinlínis að afhenda fjarskiptaþjónustu endurgjaldslaust. Ef skattskyldur aðili, sem 365 vissulega er, afhendir án endurgjalds skattskyldar vörur eða þjónustu, eins og fjarskiptaþjónustu, ber engu að síður að reikna virðisaukaskatt vegna slíkrar afhendingar og skila í ríkissjóð, og skal þá miða við almennt gangverð til grundvallar skattverðinu.
365 sendir að jafnaði út tvo greiðsluseðla á mánuði, annars vegar vegna áðurnefndra áskriftatilboða og hins vegar meðal annars vegna umfram gagnamagns, leigu á beini og vegna ljósleiðaragjalds sem rennur til Mílu. Á þeim greiðsluseðlum er ekki heldur gert ráð fyrir 25,5 prósenta virðisaukaskatts vegna fjarskiptaþjónustu, það er ljóshraðanets og heimasíma.
Í svari Ríkisskattstjóra við fyrirspurn Kjarnans vildi embættið ekki svara því hvort málið sé til skoðunar þar. Þá kveðst ríkisskattstjóri ekki geta tjáð sig um skattskil eða önnur málefni einstakra aðila.
365 vinnur að breytingum á framsetningu greiðsluseðla
Í svari Sigrúnar L. Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs 365, við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að fyrirtækið reikni og skili tvískiptum virðisauka af sjónvarpsþjónustu og fjarskiptaþjónustu. "Það er hinsvegar rétt ábending að þessi útreikningur kemur ekki fram með sýnilegum hætti á reikningnum fyrir sjónvarpsþjónustuna en verið er að vinna að því að breyta framsetningu þannig að þessi útreikningur sé sýnilegur."
Þá sé sömuleiðis unnið að því að tryggja að viðskiptavinir fái einn sameiginlegan greiðsluseðil þegar þeir kaupa fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu.