Fjölmiðlanefnd tók í október til skoðunar útsendingu á dagskrárliðnum UFC Fight Night, sem sýndur var á Stöð 2 Sport laugardaginn 4. október síðastliðinn. Í þættinum var sýnt beint frá bardaga Gunnars Nelson og Rick Story, sem Gunnar tapaði.
Útsending þáttarins hófst klukkan 19:00 eða þremur tímum fyrir svokölluð vatnaskil, sem kveðið er á um í lögum um fjölmiðla. Samkvæmt þeim er óheimilt að miðla efni í línulegri dagskrá sem ekki er talið við hæfi barna fyrir klukkan 21:00 á kvöldin virka daga og eftir klukkan 22:00 á kvöldin um helgar og til klukkan 05:00 á morgnana, nema að á undan því sé birt skýr viðvörun og það auðkennt með sjónrænu merki.
Meðferð málsins og viðræður fjölmiðlanefndar við 365 miðla leiddu til sáttar í málinu, sem undirrituð var 17. mars síðastliðinn. Sáttin felur í sér að 365 miðlar skuldbinda sig til þess að birta framvegis skýra viðvörun á undan sýningum frá keppnum í blönduðum bardagalistum, hvort heldur sem er í UFC mótaröðinni eða með öðrum hætti, og auðkenna efnið með sjónrænu merki, sem gefur til kynna að efnið sé ekki við hæfi barna, allan þann tíma sem efninu er miðlað. Sama regla skal gilda við sýningu 365 miðla frá keppnum í öðrum bardagaíþróttum, sem innihalda sýnilegt og verulegt ofbeldi sem talist getur skaðlegt velferð barna.
Sagt er frá sáttinni á vefsíðu Fjölmiðlanefndar.