Fjölmiðlasamsteypan 365 sagði upp tíu starfsmönnum í gær, sjö konum og þremur körlum. Á meðal þeirra sem misstu vinnuna voru Hödd Vilhjálmsdóttir sjónvarpskona, Hanna Ólafsdóttir blaðamaður og Jóhanna Margrét Einarsdóttir fréttamaður.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, segir í samtali við Kjarnann að þó vissulega hafi hallað á konur í uppsögnunum í gær, séu þær í minnihluta þeirra sem misst hafi vinnuna í hagræðingaraðgerðum fyrirtæksins undanfarna þrjá mánuði. Sævar segir að í uppsögnum fyrirtækisins nýverið hafi kynjahlutfallið verið um sjötíu prósent karlar, og um 30 prósent konur.
"Ég boðaði það þegar ég tók við fyrirtækinu að það yrði að einfalda skipulag, hagræða og bæta rekstur félagsins, aðgerðirnar sem hafa verið í gangi undanfarna mánuði staðfesta að við höfum verið að vinna að þessu verkefni."
Auglýsingasala hjá 365 hefur verið undir væntingum fyrirtækisins undanfarna mánuði. "Auglýsingamarkaðurinn er mjög tengdur því sem er að gerast í samfélaginu, og mín tilfinning er sú að við séum enn að bíða eftir að samfélagið fari almennilega í gang. Það vantar töluvert upp á það að þjóðfélagið fari nú að tikka svolítið," segir Sævar Freyr í samtali við Kjarnann.