Talið er að fjörtíu flóttamenn hafi drukknað í nótt á leið sinni yfir Miðjarðarhafið frá Norður-Afríku til Ítalíu. Rúmlega 300 flóttamönnum var bjargað af bátnum, sem var yfirfullur af fólki í leit að betra lífi í Evrópu, einkum frá Líbíu.
Að sögn ítölsku landhelgisgæslunnar standa björgunaraðgerðir enn yfir. „Það er enn verið að finna út nákvæman fjölda látinna,“ segir Angelino Alfano innanríkisráðherra Ítalíu í samtali við ítölsku fréttaveituna RaiNews24.
Alls hafa um 2.100 flóttamenn drukknað á ferð sinni yfir Miðjarðarhafið í ár.
Samkvæmt nýjustu tölum hafa 237 þúsund flóttamenn komist frá Norður-Afríku til Evrópu í ár samanborið við 219 þúsund á síðasta ári. Flestir setja stefnuna á Ítalíu, Grikkland, Spán og Möltu og dvelja margir þeirra í flóttamannabúðum fyrst um sinn.