Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar MMR á afstöðu almennings til þess hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið, eru 48,5 prósent þjóðarinnar andvíg inngöngu og 33,3 prósent, eða sléttur þriðjungur þjóðarinnar, hlynnt inngöngu. Könnunin var framkvæmd dagana 26. til 29 janúar og var heildarfjöldi svarenda 1003 einstaklingar, átján ára og eldri.
Tíu prósent þeirra sem studdu ríkisstjórnina voru hlynnt því að Ísland gangi í ESB, borið saman við 51,6 prósent þeirra sem ekki styða ríkisstjórninar.
Afstaða almennings til inngöngu í Evrópusambandið er sambærileg og fyrir ári síðan. Í janúar 2014 sögðust 32,3 prósent aðspurða vera hlynnt inngöngu í ESB, og 50 prósent voru því andvíg.
Þeir eldri jákvæðari fyrir inngöngu
Þeir sem tóku afstöðu og eru hlynntir því að Ísland gangi í Evrópusambandið voru hlutfallslega flestir á aldrinum 50 til 67 ára, en tæplega 39 prósent aðspurðra í aldursflokknum voru hlynntir inngöngu í ESB. Í aldursflokknum 30 til 49 voru tæplega 35 prósent hlynnt inngöngu, og ríflega 29 prósent einstaklinga á aldrinum 18 til 29 ára voru hlynnt inngöngu Íslands.
Þá voru einstaklingar yfir 67 ára aldri síst hlynntir því að Ísland gangi í Evrópusambandið, en ef þeim sem tóku afstöðu sem voru 68 ára eða eldri sögðust 26,6 prósent þeirra vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru frekar hlynntir inngöngu Íslands en þeir sem búsettir eru á landsbyggðinni. 38 prósent þeirra höfuðborgarbúa sem tóku afstöðu voru hlynnt inngöngu, borið saman við 25,7 prósent þeirra sem búsettir voru á landsbyggðinni.
Hlutfall þeirra sem voru hlynnt inngöngu Íslands hækkaði með auknum tekjum, og nokkur munur var á afstöðu fólks eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Samfylkinguna voru 77 prósent hlynnt inngöngu í ESB, 63,6 prósent þeirra sem sögðust styðja Bjarta framtíð, 51,7 prósent stuðningsmanna Pírata, 39,9 prósent þeirra sem sögðust styðja Vinstri-græn, 12,1 prósent Sjálfstæðismanna og 6,5 prósent þeirra sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn.
Meirihlutinn vill ekki að umsókn verði dregin til baka
Í nýlegri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland kom fram að meirihluti landsmanna vill ekki að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði dregin til baka. 35,7 prósent aðspurðra sögðust vilja að umsóknin verði dregin til baka en 11,1 prósent sögðust hvorki vera fylgjandi né andvígir.
Samkvæmt sömu könnun Capacent Gallup hafa heldur aldrei fleiri verið hlynntir því að Ísland verði aðili að sambandinu en nú, eða 46,2 prósent. Tæp 54 prósent svarenda voru andvígir aðild.