Við erum núna inn í 500 milljarða Bandaríkjadala „tæknibólu“, sem er dæmd til að springa. „Þetta gæti orðið verra en síðast.“ Þannig er ritað í september hefti Vanity Fair en Nick Bilton, rannsóknarblaðamaður og rithöfundur, skrifar ítarlega grein um fjárfestingar í tæknigeiranum, einkum í Sílikondalnum. Hann segir í grein sinni að ýmislegt bendi til þess að það gríðarlega fjármagn sem hafi leitað í ný tæknifyrirtæki, ekki síst eftir að snjallsímar fóru að hafa mikil áhrif það hvernig fólk notar tölvutækni í daglegu lífi, muni vafalítið leita úr þessari „bólu“ áður en langt um líður.
Bilton vitnar til umræðu sem eigi sér nú stað, ekki síst á meðal þeirra ráðgjafa og fjárfesta sem eru virkir á netinu. Nefnir hann Bill Gurley, fjárfesti og ráðgjafa hjá fyrirtækinu Benchmark Capital, sem dæmi um mann sem hafi miklar efasemdir um stöðu mála núna, enda sé markaðsvirði fyrirtækja, sem hafi stutta rekstrarsögu og að mörgu leyti óþekkt viðskiptamódel, oft með ólíkindum hátt. Fimm hundruð milljarðar Bandaríkjadala er upphæð sem nemur 64 þúsund milljörðum króna, sem er ríflega þrjátíuföld árleg landsframleiðsla Íslands.
Í umræðum á Twitter nefndi Gurley að mikið kæruleysi ríkti í tæknigeiranum gagnvart stöðu mála, og vel sé raunhæft að líkja stöðunni við það sem blasti við árið 1999, þegar netbólan sprakk með látum, með þeim afleiðingum að hlutabréfamarkaði hrundu og fjölmörg tæknifyrirtæki fóru á hausinn. „Að halda því fram að við séum ekki inn í bólu, af því að staðan er ekki eins slæm og árið 1999, er eins og að halda því fram að Kim Jong-Un sé fínn af því hann sé ekki eins slæmur og Hitler.“
I wrote a big feature for @VanityFair on whether we're in a tech bubble 2.0, and if so, what could make it go pop! http://t.co/oXdWjuBhs5
— Nick Bilton (@nickbilton) September 1, 2015
Einn þeirra sem Bilton ræðir við í umfjöllun sinni, er Mark Cuban sem seldi vefsíðu sína, broadcast.com, fyrir 5,7 milljarða Bandaríkjadala, um 700 milljarða króna, rétt áður en netbólan sprakk árið 1999. Cuban segir engan vafa leika á því að staðan nú sé orðin sambærileg við það sem hún var þegar netbólan sprakk, nema nú séu upphæðirnar margfalt hærri. Auk þess sjáist svipuð einkenni og síðast. Efasemdaröddum um stöðu mála er illa tekið og samhengi milli rekstrarstöðu og verðmiða sé nánast ósýnilegt.
Þá segir Cuban að þeir sem muni tapa mestu, þegar upp er staðið, séu þeir sem hafi fengið lánaða peninga til að fjárfesta í fyrirtækjum sem síðan ekki reynist jafn traust og þau virtust vera.