51.538 nöfn voru skrifuð á undirskriftalistann Þjóðareign.is, en söfnun undirskrifta lauk á miðnætti á fimmtudag. Undirskriftasöfnunin er sú fimmta stærsta í sögu Íslands. Aðstandendur söfnunarinnar munu afhenda forseta Íslands undirskriftalistann í þarnæstu viku.
Í áskoruninni sem fólk skrifaði undir var skorað á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu makrílfrumvarpi sjávarútvegsráðherra, sem náði á endanum ekki fram að ganga, og hverjum þeim lögum sem þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til meira en eins árs á meðan ekki er skýrt auðlindaákvæði í stjórnarskrá.
Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar voru þau Agnar K. Þorsteinsson, Bolli Héðinsson, Guðrún Pétursdóttir, Henný Hinz, Jón Sigurðsson, Jón Steinsson og Þorkell Helgason.
Í samtali við mbl.is segir Bolli að aðstandendur séu gríðarlega sáttir við þátttökuna, alveg hafi verið ófyrirséð hversu margar undirskriftir hafi safnast og fjöldinn hafi komið skemmtilega á óvart.
Aðstandendur söfnunarinnar eru þó viðbúnir því að einhver nöfn falli út. Nú verði undirskriftirnar samkeyrðar við þjóðskrá og þau nöfn fjarlægð sem ekki passa. Það sé búið að gera þetta jafnóðum að einhverju leyti en nú verði lokayfirferð og ekki mjög margar undirskriftir ættu að falla burt. Að þessu loknu verður listinn afhentur Ólafi Ragnari.
Fimmta stærsta undirskriftasöfnunin
Áður en ráðist var í þessa undirskriftasöfnun tók Kjarninn saman fréttaskýringu um undirskriftasafnanir á undanförnum árum. Á þeim lista kemst þjóðareign í fjórða sætið. Tæplega 54 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að áframhald viðræðna við ESB færu í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra og árið 2010 skrifuðu ríflega 56 þúsund manns undir lista gegn Icesave 2. Fjölmennasta undirskriftasöfnunin er hjartað í Vatnsmýri, sem ráðist var í árið 2013.
Ef litið er til lengri tíma kemur undirskriftasöfnunin Varið land, sem ráðist var í árið 1974, inn í þriðja sætið, en tæplega 56 þúsund manns skrifuðu undir hana. Þetta kemur fram í samantekt sagnfræðingsins Stefáns Pálssonar frá því í maí. Samkvæmt þeim lista er þjóðareign í fimmta sæti yfir stærstu undirskriftasafnanirnar.