STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, greiðir út 420.103.975 krónur í höfundaréttargreiðslur (það sem stundum er kallað STEF-gjöld) fyrir árið 2014. Er það 13,56 prósent hækkun á milli ára en heildarúthlutun hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin ár.
Greitt er árlega til rétthafa tónlistar í samræmi við fjölda spilana í útvarpi, á tónleikum og víðar. Við geiðslurnar í ár bætast um 40 milljónir í styrki sem STEF veitir í gegnum sjóði sína. Endanlegt rekstraruppgjör liggur þó ekki fyrir svo ekki er hægt að greina frá heildarupphæðinni sem stendur.
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, segir hækkunina á höfundaréttargreiðslunum nú skýrast að hluta vegna þess hve vel reksturinn hefur gengið undanfarin ár og hækkunar á rekstrarreikningi samtakanna um um það bil 6 prósent á árinu.
„En aðallega skýrist hækkunin af auknum flutningi íslenskrar tónlistar erlendis,“ segir hún í samtali við Kjarnann. „Við höfum lagt meiri áherslu á að tónleikahaldarar erlendis skili inn lagalistum og tilgreini hvað þeir flytja.“
Rétthafar tónlistar eru í mörgum tilfellum ekki aðeins tónlistarmennirnir sjálfir eða höfundar, heldur eiga mörg fyrirtæki eða samtök höfundarétt af tónlist. Heildarupphæðin sem greidd er út berst því ekki einvörðungu til tónlistarmannana sjálfra.
Þá njóta erlendir rétthafar einnig góðs af tónlistarspilun hér á landi. Af heildargreiðslum þetta árið fer rúmlega þriðjungur eða 149.546.048 krónur til erlendra aðila.
Höfundaréttargreiðslur eru greiddar út í samræmi við spilanir í útvarpi, á tónleikum eða í öðrum almannarýmum.
Höfundaverkum fjölgar
Hjá STEF eru 11.726 verk skráð í eigu 1.754 höfunda. Þeir sem fengu úthlutað meira en 500 þúsund krónum í ár voru 127 talsins en 53 fengu meira en eina milljón í höfundaréttargreiðslur.
Þrír fjórðu þeirra sem fá úthlutað fá minna en 100 þúsund krónur eða 1.343. Þá fengu 304 úthlutað á bilinu 100-500 þúsund krónum. Lágmarksúthlutn er 3.000 krónur, en nái greiðsla ekki þeirri upphæð bíður hún þar til hún safnast upp og nær lágmarkinu.
Á hverju ári fjölgar höfundaverkum sem skráð eru hjá STEF um þrjú þúsund verk. Árið 2014 fjölgaði meðlimum í samtökunum um 130. Nú eru 69.491 höfundaverk á skrá hjá STEF.
Greiðslur úr sjóðum STEF munu seint geta orðið eini tekjustofn tónlistarmanna sem vilja lifa á tónlistinni einni saman. „Ef maður einn góðan hittara sem nær góðri útbreiðslu innlands, þá fær viðkomandi lag 500-600 þúsund. Það verður seint einhver ríkur af þessu á Íslandi. Þetta er bara einn af tekjupóstinum fyrir tónlistarmenn,“ segir Guðrún Björk.