75,1 prósent aðspurðra eru fylgjandi því að Skattrannsóknarstjóri ríkisins kaupi gögn um skattaundanskot Íslendinga erlendis, samkvæmt nýrri könnun MMR um málið.
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eru síður fylgjandi kaupum á gögnunum en stuðningsmenn annarra flokka. Samkvæmt könnuninni er yngra fólk einnig ólíklegra til að vera fylgjandi kaupunum en þeir sem eru eldri.
Af þeim sem tóku afstöðu voru 52,9 prósent mjög fylgjandi því að gögnin verði keypt og 22,2 prósent frekar fylgjandi því. 15,5 prósent voru hvorki fylgjandi né andvít, 4,8 prósent frekar andvíg og 4,6 prósent mjög andvíg því að skattaskjólsgögnin verði keypt.
Yngri, stuðningsmenn ríkisstjórnar og Sjálfstæðisflokks frekar á móti
Yngra fólk er ólíklegra til að vera fylgjandi því að gögnin verði keypt. Í yngsta aldurshópum, 18 til 29 ára, voru 56,2 prósent vera fylgjandi kaupunum. Í aldurshópnum 50 til 67 ára mældist stuðningurinn 87,2 prósent.
Þeir sem sögðust styðja ríkisstjórnina voru frekar mótfallnir því að gögnin yrðu keypt en aðrir, en 68,6 prósent stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar voru fylgjandi kaupunum. 80,4 prósent þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina vilja kaupa gögnin.
Þá er almennt nokkur munur á afstöðu eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. 60,9 prósent þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn eru fylgjandi kaupum en 16,1 prósent sögðust þeim mótfallnir.
77 prósent þeirra sem kjósa Framsóknarflokkinn eru fylgjandi því að gögnin verði keypt en 3,4 prósent á móti. Hjá stuðningsmönnum Bjartrar framtíðar segjast 8,8 prósent vera á móti kaupunum en 78,3 prósent með.
Engir stuðningsmenn Pírata og VG á móti kaupum
0,0 prósent stuðningsmanna Pírata og Vinstri grænna voru mótfallnir kaupum á gögnum úr skattaskjólum en 86,7 og 93,6 prósent þeirra segjast fylgjandi kaupunum.
3,9 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru á móti kaupunum en 92,4 prósent fylgjandi þeim.
Miðað við svörun í könnun MMR eru vikmörk allt að 3,1 prósent, sem verður að hafa í huga við túlkun á könnuninni.