Félagsmenn Starfsgreinasambands Íslands (SGS) samþykktu verkfallsaðgerðir sambandsins með 94,6 prósent atkvæða. Verkfallsaðgerðir rúmlega tíu þúsund félagsmanna SGS hefjast því í næstu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, sendi frá sér rétt í þessu. Um 42 prósent atkvæðisbærra félaga í SGS starfa á matvælasviði (fiskvinnslu, afurðastöðvum, kjötvinnslum og í sláturhúsum) en 32 prósent eru í þjónustugreinum (ferðaþjónustu, ræstingum o.fl.). Aðrir hópar telja byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, iðnað og farartækja- og flutningsgreinar.
Þar segir að kjörsókn hafi verið 50,4 prósent en þátttaka í kosningunni jókst eftir því sem leið á vikuna samfara mikilli umfjöllun og umræðu sem varð um kjaramál síðustu daga í þjóðfélaginu. Kjörsóknin var umtalsvert meiri en væntingar verkalýðsfélaganna höfðu staðið til. Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, segist fagna mikilli kjörsókn. "Verkföll eru alltaf síðasta úrræðið og við vonum að það náist að semja fyrir 30. apríl. Þó getum við ekki verið of vongóð miðað við það sem komið hefur frá fulltrúum Samtaka atvinnulífsins. Þá skiptir máli að niðurstaðan í kosningunni var skýr, félagsmenn eru tilbúnir í verkfall. Kjörsókn upp á 50,4% þar sem 95% lýsa einni afstöðu, er mjög hátt hlutfall. Sérstaklega þegar litið er til þess um hversu fjölbreyttan hóp fólks er að ræða, t.a.m. farandverkafólk, skólafólk og fólk í hlutastörfum. Kjörsóknin var einnig meiri á þeim stöðum þar sem fiskvinnsla er undirstöðugrein og kemur það okkur síst á óvart, enda er óréttlætið í því hvernig gæðunum er skipt alveg hrópandi í sjávarútveginum."
Kosið var í 16 aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins um tvo aðalkjarasamninga, niðurstöður skipt eftir aðildarfélögum og samningum má sjá á vef Starfsgreinasambandsins.
Verkfall félagsmanna SGS hefst fimmtudaginn 30. apríl og stendur fyrst um sinn yfir í hálfan sólarhring, frá hádegi til miðnættis. Eftir það taka við regluleg sólarhringsverkföll þar til ótímabundið verkfall hefst 26. maí. Ljóst er að verkföllin munu hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt.
Tímasetningar verkfallsaðgerðanna:
30. apríl 2015 Allsherjar vinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag.
6. maí 2015 Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 6. maí).
7. maí 2015 Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 7. maí).
19. maí 2015 Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 19. maí).
20. maí 2015 Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 20. maí).
26. maí 2015 Ótímabundin vinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015.