Alls höfðu 637 einstaklingar fengið leiðréttingu búsetuhlutfalls hjá Tryggingastofnun (TR) þann 7. maí síðastliðinn og 536 einstaklingar til viðbótar hafa fengið bréf tengt búsetuleiðréttingu. Vinnsla þeirra mála er hafin en niðurstaða liggur ekki fyrir.
Þetta kemur fram í svari félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen, þingmanni Pírata, um leiðréttingu búsetuhlutfalls örorkulífeyrisþega.
Tryggingastofnun þurfti að endurskoða og leiðrétta örorkulífeyri í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis vegna leiðréttingar búsetuhlutfalls einstaklinga sem búsettir hafa verið erlendis. Endurskoðun búsetuhlutfalls náði til 1. júní 2014 hjá örorkulífeyrisþegum sem hafa verið búsettir í öðru EES/EFTA landi.
Leiðrétting ekki hafin hjá 224 einstaklingum
Í svari ráðherra kemur jafnframt fram að ekki sé hafin leiðrétting hjá 224 einstaklingum. „Þar af eru 96 látnir en mál 128 einstaklinga sem eru búsettir erlendis en eiga einhver réttindi hjá TR eru í skoðun þar sem um er að ræða vafamál og því ekki unnt að hefja leiðréttingu búsetuhlutfalls,“ segir í svarinu.
Enn fremur segir að frá 20. júní 2018 hafi 3.404 einstaklingar fengið samþykkt 75 prósent örorkumat. Þar af hafi 401 einstaklingur ekki öðlast fullan rétt til greiðslna á grundvelli búsetu hér á landi en 40 þeirra fengið greitt miðað við hlutfallslegan framreikning. 213 einstaklingar muni fá tímabundið greiddan örorkulífeyri miðað við hlutfallslegan framreikning á meðan leyst sé úr því við hvaða búsetuhlutfall skuli miða.
Skerðingin ekki í samræmi við lög
Fyrir rúmum tveimur árum síðan hóf TR vinnu við endurskoðunina en stofnunum gerði ráð fyrir að leiðréttingunni yrði lokið á árinu 2021.
Forsaga málsins er sú að þúsundir einstaklingar sem bjuggu erlendis, en innan EES-svæðisins, höfðu orðið fyrir skerðingu á rétti sínum til örorkulífeyris vegna túlkunar Tryggingastofnunar á ákveðnum ákvæðum í lögum um almannatryggingar.
Umboðsmaður Alþingis komst hins vegar að þeirri niðurstöðu sumarið 2018 að slíkt væri ekki í samræmi við lög. Í álitinu segir að að lækkun greiðsluhlutfalls lífeyris vegna búsetu erlendis hafi ekki verið í samræmi við lög. Velferðarráðuneytið lýsti í kjölfarið þeirri afstöðu sinni að það væri sammála niðurstöðu umboðsmanns Alþingis og óskaði eftir því að Tryggingastofnun endurreiknaði greiðslur til hlutaðeigandi einstaklinga og leiðrétti þær sem vangreiddar hafi verið, ásamt vöxtum.