99,97 prósent kosningabærra manna í Norður-Kóreu mættu á kjörstað til að kjósa í sveitarstjórnarkosningum í gær. Þetta segir ríkisfjölmiðillinn KCNA í N-Kóreu. Þetta er sama kosningaþátttaka og í þingkosningum sem voru haldnar í fyrra.
„Allir þátttakendur tóku þátt í kosningunum með ótrúlegum áhuga á að styrkja byltingarkennd völd í gegnum kjör á fulltrúum til sveitarstjórna,“ sagði KCNA í Pjongjang um málið. Aðeins þeir sem voru erlendis kusu ekki í kosningunum, að þeirra sögn. Kjördeildir voru færðar til veikra og aldraðra svo þeir gætu kosið.
Á fjögurra ára kjörtímabilum sínum koma þessar sveitarstjórnir saman einu sinni til tvisvar á ári, samþykkja fjárhagsáætlanir og styðja leiðtoga sem stjórnarflokkurinn hefur valið.
Hefð er fyrir því að kosningaþátttaka sé nálægt 100 prósentum í ríkinu, og yfirleitt eru frambjóðendur, sem stjórnvöld hafa valið, kjörnir með svipuðum yfirburðum. Árið 2011 voru til dæmis 28.116 fulltrúar valdir í sveitarstjórnir með öllum greiddum atkvæðum.
Kosningar í Norður-Kóreu eru oft notaðar til þess að kanna hvort einhverjir þekktir embættismenn hafi verið fjarlægðir. Stjórnvöld í Suður-Kóreu segja að frá því að Kim Jong-un tók við völdum í ríkinu hafi tugir háttsettra embættismanna verið látnir hverfa úr embættum sínum og teknir af lífi. Þekktastur var frændi Kim, Jang Song-Thaek, sem var tekinn af lífi árið 2013. Hann var áður áhrifamikill í landinu en var svo sakaður um spillingu, eiturlyfjanotkun, spilafíkn og fleira.