Nú hafa ríflega þrjú þúsund manns ritað nafn sitt undir stuðningsyfirlýsingu á netinu, þar sem skorað er á samgönguyfirvöld að ráðast í gerð jarðganga milli Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs, undir Fjarðarheiðina alræmdu, svokölluð Fjarðarheiðargöng. Þess má geta að íbúar Seyðisfjarðar eru 653 talsins samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Í áskoruninni er þess krafist að ráðist verði í jarðgangagerðina sem allra fyrst, og alls ekki síðar en við lok framkvæmda við Norðfjarðargöng sem eru langt komnar. „Fjölmargar ályktanir og áköll hafa komið frá Seyðfirðingum um varanlegar samgöngubætur. Ekki verður lengur unað við þær hættulegu og óásættanlegu aðstæður sem eru í samgöngumálum Seyðisfjarðar,“ eins og segir í áskoruninni.
Eini vegurinn til og frá firðinum
Vegurinn um Fjarðarheiði er eini vegurinn til og frá Seyðisfirði og liggur í 620 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar er oft mikið veðravíti yfir vetrarmánuðina, og heiðin því oftar en ekki mikill farartálmi fyrir heimamenn, gesti fjarðarins sem og farþega ferjunnar Norrænu. Þá lokaðist heiðin ítrekað síðastliðinn vetur og stundum í nokkra daga í senn með tilheyrandi óþægindum fyrir gesti og íbúa Seyðisfjarðar sem urðu þá innikróaðir, til að mynda með takmarkaða heilbrigðisþjónustu.
Í áskoruninni til stjórnvalda segir enn frekar: „Seyðfirðingar hafa barist fyrir Fjarðarheiðargöngum í meira en 30 ár og því löngu orðið tímabært að hlustað sé á neyðaróp okkar. Seyðfirðingar hafa sýnt mikla biðlund og skilning á nauðsyn annarra jarðganga- og vegaframkvæmda í landinu og stutt heilshugar við þær. Nú er komið að Fjarðarheiðargöngum.“
Veldur íbúum óþægindum og öryggisleysi
Seyðfirðingar segja mörg rök hníga að gerða Fjarðarheiðarganga, fyrir utan öryggisleysið sem fylgi því að eiga sífellt á hættu að eini vegurinn til staðarins lokist á veturna.
Mikil atvinnu- og skólasókn sé yfir heiðina í báðar áttir, og þá sé stór hluti byggðarinnar á Seyðisfirði á skilgreindum ofanflóðasvæðum. „Ef hættuástand skapaðist og/eða snjóflóð féllu eru Seyðfirðingar mjög háðir því að samgöngur um þennan eina akveg séu greiðfærar.“
Þá veigri margir sér við að leggja á heiðina nema hún sé greiðfær, og öruggar samgöngur frá Seyðisfirði séu nauðsynlegar til að komast í sjúkraflug frá Egilsstöðum eða á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað þar sem til að mynda fæðingardeild svæðisins sé til húsa.
„Heilbrigði og öryggi Seyðfirðinga er ógnað vegna tíðrar ófærðar yfir heiðina. Löggæsla hefur verið verulega skert á Seyðisfirði og lögreglustöðin hefur m.a. verið lögð niður. Byggðaþróun hefur ekki verið nógu hagstæð. Óviðunandi samgöngur er stór þáttur í þeirri þróun. Með jarðgöngum stækkar atvinnusvæði Seyðisfjarðar og nágrannabyggðarlaga. Forsenda sameiningar sveitafélaga eru bættar samgöngur.“