Í fimm ára fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að arðgreiðslur frá Orkuveitu Reykjavíkur (OR), sem borgin á 93,5 prósent hlut í, muni hækka á komandi árum. OR greiddi út 1,5 milljarð króna í arð til eigenda sinna árið 2019, þrjá milljarða króna í fyrra og fjóra milljarða króna í ár.
Samkvæmt áætlun Reykjavíkurborgar til næstu ára er reiknað með að OR borgi stærsta eiganda sínum 25,4 milljarða króna í arðgreiðslur á árunum 2022 til 2026. Á því tímabili er áætlað að hlutdeild borgarinnar í arðgreiðslum orkufyrirtækisins verði á bilinu 4,7 til 5,6 milljarðar króna á ári. Samkvæmt því má ætla að heildararðgreiðslur OR verði, samkvæmt fimm ára áætluninni, fimm milljarðar króna strax á næsta ári og nái hámarki árið 2026 þegar þær fara í sex milljarða króna. Aðrir eigendur OR eru Akranes (5,5 prósent) og Borgarbyggð (eitt prósent).
Gangi þessi áætlun eftir munu arðgreiðslur út úr OR því hafa fjórfaldast milli 2019 og 2026 og tvöfaldast frá því í fyrra og fram til ársins 2026.
Ábyrgðargjald mun fara lækkandi
Í fimm ára áætluninni segir að gert sé ráð fyrir arðgreiðslum frá OR í samræmi við áætlanir fyrirtækisins, eða að arðgreiðslurnar séu háðar því að arðgreiðsluskilyrði séu uppfyllt.
Jafnframt er gert ráð fyrir tekjum af svokölluðu ábyrgðargjaldi frá OR í samræmi við núverandi mat óháðs aðila á lánskjörum, með og án eigendaábyrgðar, með tilliti til höfuðstóls gjaldskyldra skuldbindinga á hverjum tíma fyrir sig.
Ábyrgðargjaldið hefur verið greitt frá árinu 2005 vegna ábyrgða sem eigendur OR hafa veitt á skuldir samstæðunnar. Í fyrra var gjaldið 0,85 prósent á lán vegna sérleyfisstarfsemi og 0,61 prósent á lán vegna samkeppnisstarfssemi. Á árinu 2020 greiddi OR alls 647 milljónir króna til eigenda sinna í ábyrgðargjald. Þar af hafa farið um 605 milljónir króna til Reykjavíkurborgar miðað við hlutdeild borgarinnar í fyrirtækinu.
Í áætlun Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir því að ábyrgðargjaldið sem greiðist til Reykjavíkur fari lækkandi á komandi árum. Þannig reiknar borgin með að hlutdeild hennar í gjaldinu verði 412 milljónir króna á næsta ári en að það lækki svo ár frá ári og verði 141 milljón króna árið 2026.
Gert ráð fyrir 66 milljarða króna hagnaði á árunum 2023 til 2026
Í fimm ára áætlun Reykjavíkurborgarinnar sem var lögð fram í liðinni viku er gert ráð fyrir að afkoma samstæðunnar batni á tímabilinu 2023 til 2026. Gert er ráð fyrir að hagnaður samstæðunnar verði samtals 66,2 milljarðar króna á því fjögurra ára tímabili.
Þar er gert ráð fyrir að A-hlutinn, sá sem er fjármagnaður með skatttekjum, skili afgangi strax á árinu 2023 og að hann verði tveir milljarðar króna. Rekstrarhagnaðurinn fari svo batnandi í kjölfarið og verði samtals 20,5 milljarðar króna á árunum 2024 til 2026. B-hlutinn, sem nær utan um fyrirtæki í eigu borgarinnar, þar sem OR skiptir langmestu máli, er þó áfram sem áður sá hluti samstæðunnar sem skilar mestur hagnaði.
Stefnt er að því að reka samstæðu Reykjavíkurborgar með 8,6 milljarða króna afgangi á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2022. Sá hluti rekstrar Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, verður hins vegar að óbreyttu rekinn með 3,4 milljarða króna halla. Sá halli bætist við 9,7 milljarða króna halla á A-hlutanum í ár samkvæmt útkomuspá og 5,8 milljarða króna halla á honum í fyrra.
Samanlagt er því gert ráð fyrir að A-hluti rekstrar Reykjavíkurborgar verði rekinn í 18,9 milljarða króna halla á árunum 2020 til 2022.