Áætlun ríkisstjórnarinnar um losun hafta verður kynnt á ríkisstjórnarfundi í dag. Til stendur að kynna hana almenningi á mánudag. Um er að ræða nokkur frumvörp, fimm eða sex talsins, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun leggja fram. Þau verða hins vegar ekki öll lögð fram nú, heldur að hluti til á haustþingi. Stöðugleikaskatturinn, sem lagður verður á eignir sem vilja komast út úr höftunum, verður 40 prósent. Alls er talið að slitabú föllnu bankanna þurfi að gefa eftir allt að 500 milljarða króna af eignum sínum. Þetta kemur fram í DV í dag.
Þar segir að samkvæmt áætluninni muni slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans fá nokkrar vikur til að ljúka nauðasamningum sem uppfylli skilyrði haftaáætlunar ríkisstjórnarinnar og með hætti sem ógnar ekki greiðslujöfnuði til lengri tíma. Takist þeim það ekki verður lagður 40 prósent skattur á eignir þeirraþ Heildareignir slitabúanna eru um 2.200 milljarðar króna. Tilgangurinn með skattlagningunni á ekki að vera tekjuöflun fyrir ríkissjóð heldur einungis að vernda greiðslujafnvægi við losun hafta.
Áætlunin verður kynnt á ríkisstjórnarfundi í dag og í kjölfarið verður hún kynnt fyrir oddvitum stjórnarandstöðunnar. Á mánudag verður síðan kynning fyrir almenning og fjölmiðla. Samkvæmt DV mun Halldór Benjamín Þorbergsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandair, sjá um þá kynningu. Hann sá einnig um kynningu á útfærslu "Leiðréttingarinnar", skuldaniðurfærsluaðgerða ríkisstjórnarinnar, í lok síðasta árs.
Samkvæmt DV hefur vinna framkvæmdahóps stjórnvalda að losun hafta miðast að því að ríkið sé ekki að fara að eignast hluti slitabúanna í Arion banka og Íslandsbanka, sem eru langstærstu innlendu eignir slitabúa Kaupþings og Glitnis.