„Hvað varðar þetta að blaðamenn séu komnir með réttarstöðu sakbornings er náttúrlega mjög þungt skref, svo maður taki nú ekki dýpra í árinni,“ sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í sjónvarpsþættinum Fréttavaktinni á Hringbraut í gær er hún var spurð hvort hún tæki undir þá skoðun sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti í Facebook-færslu í fyrradag.
Í færslunni fjallaði Bjarni um mál blaðamanna, m.a. tveggja sem starfa á Kjarnanum, sem fengið hafa réttarstöðu sakbornings fyrir að skrifa fréttir um „skæruliðadeild“ Samherja. Lögreglan segir rannsóknina tengjast meintum brotum á lögum um friðhelgi einkalífsins.
Í færslu sinni spurði Bjarni m.a. hvort að fjölmiðlamenn væru of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar og hvernig það geti talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að þeir gefi skýrslu.
Svandís var á Fréttavaktinni spurð hvort hún væri á „sömu blaðsíðu“ og Bjarni.
Hún sagðist „engan veginn“ vera upplýst um þessa tilteknu rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem fjórir blaðamenn hafa fengið réttarstöðu sakbornings í. „En eins og þetta horfir við mér þá hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að það skipti gríðarlega miklu máli í opnu og lýðræðislegu samfélagi að fjölmiðlar séu þróttmiklir, að þeir séu kjarkaðir – ekki síst þegar kemur að því að benda á spillingu og annað sem betur mætti fara.“
Í Morgunútvarpinu á Rás 1 í morgun ræddi Svandís kvótakerfið og var m.a. spurð hvort hún teldi spillingu vera innan þess í dag. Hún svaraði því til að hættan á spillingu væri fyrir hendi og minnti í því sambandi á „gríðarlega mikilvægt hlutverk“ fjölmiðla sem væri ein hlið málsins. „Að þeir séu frjálsir og öflugir. Að þeir séu þannig að þeir þurfi ekki að búa við óttann af því að vera þaggaðir niður. Vegna þess að það er þeirra hlutverk að vera þessi brú til almennings. Svo almenningur sjái, viti og geti haft forsendur til að mynda sér skoðanir.“
Kjarninn hefur reynt að fá viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra vegna málsins en án árangurs.
Um störf blaðamanna gilda önnur lög
Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna svöruðu spurningum Bjarna í sameiginlegri yfirlýsingu í gærkvöldi. Í henni bentu fagfélögin á að vissulega væru blaða- og fréttamenn sem einstaklingar jafnir öðrum að lögum, t.d. ef þeir eru grunaðir um ölvunarakstur, fjársvik eða ofbeldisbrot. „Um störf þeirra gegnir hins vegar öðru máli. Um þau gilda önnur lög og reglur en um önnur störf, vegna hlutverks þeirra.“
Frelsi blaðamanna til að fjalla um mikilvæg fréttamál og veita valdhöfum aðhald sé lýðræðissamfélaginu lífsnauðsynleg. „Blaðamennska getur verið, og á að vera óþægileg fyrir fólk, stofnanir og fyrirtæki í valdastöðum, því hún afhjúpar mistök, bresti og spillingu í kerfinu. Til þess að greina frá slíkum brestum getur verið nauðsynlegt að nota gögn sem ekki hefur verið aflað með lögmætum hætti. Dómstólar hafa staðfest að notkun blaðamanna á slíkum gögnum geti samræmst hlutverki þeirra að taka við og miðla upplýsingum sem erindi eiga við almenning.“
Fagfélögin benda ennfremur á að Íslendingar hafi, eins og margar aðrar lýðræðisþjóðir, slegið ákveðna varnagla til að tryggja blaðamönnum athafnafrelsi til að sinna störfum sínum. Þá megi t.d. finna í lögum um fjölmiðla, þar sem blaðamönnum er beinlínis bannað að rjúfa trúnað við heimildarmenn sína, hafi þeir óskað nafnleyndar.
„Lagaleg sérstaða blaða- og fréttamanna í störfum sínum ætti því að vera skýr. Vandséð er hverju blaða- og fréttamennirnir fjórir geta svarað umfram það í yfirheyrslum hjá lögreglu.“
Tveir þeirra blaðamanna sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra starfa á Kjarnanum.