Bankasýsla ríkisins hefur sett af stað söluferli á að minnsta kosti 20 prósent hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka. Tilkynnt verður um niðurstöður söluferlisins fyrir opnun markaða á morgun og uppgjör viðskiptanna fer fram þann 28. mars. Eftir þann dag, sem er næstkomandi mánudagur, verður ríkissjóður orðinn minnihlutaeigandi í Íslandsbanka.
Sölufyrirkomulagið verður með tilboðsferli til „innlendra og erlendra hæfra fjárfesta“ en ákvörðun um útboðsgengi og endanlegan hlut sem seldur verður mun á endanum verða í höndum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Í tilkynningu sem Bankasýslan hefur birt á heimasíðu sinni segir að sú ákvörðun verði tekin þegar áætlaðar niðurstöður úr söluferlinu liggja fyrir og að teknu tilliti til meðal annars eftirfarandi þátta, dagslokagengis hlutabréfa Íslandsbanka á aðalmarkaði Nasdaq Iceland, markaðsaðstæðna, eftirspurnar ásamt öðrum þáttum.“
Markaðsvirði Íslandsbanka við lokun markaða í dag var 244 milljarðar króna. Miðað við það gengi ætti sala á 20 prósent hlut að skila ríkissjóði að minnsta kosti 48,8 milljörðum króna. Ríkissjóður seldi 35 prósent hlut fyrir aðeins hærri upphæð, 55,3 milljarða króna, í fyrrasumar. Markaðsvirði þess hlutar nú er um 85,4 milljarðar króna og hann því hækkað um rúmlega 30 milljarða króna frá því að ríkissjóður seldi.
Tilkynnt var um það síðdegis á föstudag að Bjarni hefði ákveðið að hefja framhald sölumeðferðar á hlutum í Íslandsbanka í samræmi við tillögu Bankasýslu ríkisins frá 20. janúar síðastliðnum. Ráðherrann sendi Bankasýslunni bréf um ákvörðunina þann dag.
Mikill hagnaður í fyrra og stefnt á tugmilljarða útgreiðslur
Íslandsbanki hagnaðist um 23,7 milljarðar króna á árinu 2021. Arðsemi eigin fjár var 14,2 prósent og sem var vel yfir tíu prósent markmiði bankans. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 54,3 prósent í 46,2 prósent milli ára.
Eigið fé Íslandsbanka var 203,7 milljarðar króna um síðustu áramót og eiginfjárhlutfall bankans 25,3 prósent. Útlán til viðskiptavina Íslandsbanka jukust um 7,9 prósent á síðasta ári. Þá aukningu má að mestu rekja til aukinna umsvifa á húsnæðismarkaði. Vaxtamunur bankans var 2,4 prósent. Hreinar vaxtatekjur voru 34 milljarðar króna og hækkuðu um tvö prósent milli ára. Þóknanatekjur hækkuðu hins vegar um 22,1 prósent og voru samtals 12,9 milljarðar króna.
Á grundvelli þessarar afkomu var ákveðið að greiða hluthöfum sínum 11,9 milljarða króna í arð. Þar af fóru 65 prósent til stærsta einstaka eigandans, íslenska ríkisins, eða rúmlega 7,7 milljarðar króna. Þeir sem eiga 35 prósent hlut í bankanum fengu svo samanlagt tæpa 4,2 milljarða króna í arðgreiðslu. Auk þess stefnir stjórn bankans að því að greiða út 40 milljarða króna í umfram eigið fé á næstu 12-24 mánuðum. Sú vegferð hófst með því að aðalfundur bankans samþykkti í gær að hefja endurkaup á bréfum fyrir 15 milljarða króna á næstu mánuðum.