Það er mat formanns úthlutunarnefndar Jöfnunarsjóðs sókna að það séu að minnsta kosti 30 söfnuðir í landinu sem geti talist vera ógjaldfærir sakir skertra sóknargjalda. Því mætti segja að „ þeir væru tæknilega gjaldþrota.“ Þetta kemur fram í samantekt sem Kirkjuþing þjóðkirkjunnar hefur skilað inn til fjárlaganefndar vegna umfjöllunar um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp og breytingar á lögum sem ráðast þarf í vegna þess.
Þar segir enn fremur að tilfinningin sé sú að miklu fleiri söfnuðir séu í fjárhagsvanda en að einhverju leyti sé vandanum ýtt á undan með því að draga úr þjónustu og starfi og fresta viðhaldi fasteigna.„ Jöfnunarsjóður hefur í ákveðnum tilvikum haldið safnaðarstarfi á lífi með árlegum styrkjum en það er ekki hlutverk sjóðsins til lengri tíma litið. Það segir sig sjálft að enginn rekstur getur þolað tekjufall á bilinu 40 - 50 prósent árum saman án þess að það hafi alvarleg áhrif. Því til viðbótar hefur verðbólga undanfarna mánuði og miklar vaxtahækkanir gert stöðuna enn verri.“
Undir 60 prósent í þjóðkirkjunni
Alls voru 59,7 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna 1. október síðastliðinn. Það hlutfall fór í fyrsta sinn undir 60 prósent í sumar.
Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna. Síðastliðna áratugi hefur hlutfall þeirra sem tilheyra henni dregist saman og frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað á hverju ári.
Segja einungis liðlega helming sóknargjalda skilað til safnaða
Þjóðkirkjan hefur hins vegar ekki verið ánægð með þau framlög sem hún fær úr ríkissjóði á undanförnum árum, og sérstaklega ekki það sem hún telur að sé skerðing á sóknargjöldum. Sú skerðing hófst árið 2009. Í samantektinni segir að skerðingin hafi verið viðvarandi frá því ári og aukist ár frá ári. „Einungis liðlega helmingi sóknargjalda verður skilað til safnaðanna á næsta ári m.v. fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp, eða um 52 prósent af því sem ætti að vera.“
Þar segir enn fremur að í fjárlagafrumvarpi 2023 sé lögð til um það bil fimm prósent lækkun sóknargjaldsins í um það bil tíu prósent verðbólgu og að krónutalan verði þar með nokkru lægri en var árið 2021, eða 1.060 krónur. Samkvæmt lögum ætti það að vera 2.010 krónur á næsta ári, eða 47,7 prósent hærra en lagt sé til. Því vanti 960 krónur á mánuði í hvert greitt sóknargjald.
Til samanburðar þá var sóknargjaldið 975 krónur per gjaldanda á mánuði árið 2020, 1080 krónur árið 2021 og 1.107 krónur í ár, að viðbættri tímabundinni hækkun upp á 100 krónur per gjaldanda. Sú tímabundna hækkun skilaði alls 272,4 milljóna króna viðbótarútgjöldum hjá ríkissjóði í fyrra. Að óbreyttu munu sóknargjöld kosta ríkissjóð 2.961 milljónir króna á næsta ári.
Lítið traust og meirihluti vill aðskilnað
Þeim Íslendingum sem treysta þjóðkirkjunni hefur fækkað um helming frá aldamótum, en í könnun sem var birt snemma á þessu ári sögðust 29 prósent landsmanna bera mikið traust til hennar. Af þeim stofnunum samfélagsins sem spurt var um traust til mældust einungis tvær með minna traust en þjóðkirkjan: bankakerfið (23 prósent) og borgarstjórn Reykjavíkur (21 prósent).
Þessu var breytt árið 2013 og nú þurfa báðir foreldrar að tilheyra sama trú- og lífsskoðunarfélagi til að barnið sé skráð í félag, annars skráist barnið utan trúfélaga. Á sama tíma var ramminn utan um hvers kyns félög mættu skrá sig sem trú- og lífskoðunarfélög og þiggja sóknargjöld rýmkaður.
Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að einungis 15 prósent landsmanna eru ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup.
Alls sögðust 51 prósent landsmanna að þeir vildu aðskilnað ríkis og kirkju. Hlutfallið hefur verið yfir 50 prósent í næstum árlegum könnunum Gallup frá árinu 2007.
Í þjóðarpúlsinum sást að fólk undir fertugu er helst hlynnt aðskilnaði.