"Staðan er þannig að við erum enn að leita að samstarfsaðilum eða kaupendum að bolfiskvinnslunni okkar á Flateyri, með það að markmiði að starfsemin geti haldið þar áfram." Þetta segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Odda í samtali við Kjarnann. "Umleitanir okkar eru á viðkvæmu stigi, en ég er búinn að ræða við aðila, sem hafa ýmist í hyggju um að ganga til liðs við okkur eða kaupa, og þreifingar eru í gangi."
Eins og kunnugt er hyggst sjávarútvegsfyrirtækið Arctic Oddi á Flateyri hætta þar bolfiskvinnslu, eftir að Byggðastofnun dró úthlutun 300 tonna byggðakvóta til fyrirtækisins til baka. Byggðastofnun segir úthlutun kvótans háða framtíðarsýn fyrirtækisins varðandi bolfiskvinnslu á Flateyri, en Arctic Oddi hyggst nú einbeita sér að kjarnastarfsemi fyrirtækisins, það er vinnsla á eldisfiski. "Eftir að við misstum byggðakvótann þá var stoðuðum kippt undan bolfiskvinnslunni, en við höfum skilning á afstöðu Byggðastofnunnar. Við höfum staðið við okkar samkomulag til þessa, og unnið allan fisk á Flateyri samhliða eldisfisknum. Við ætluðum að gera það áfram en nú sjáum við ekki lengur forsendur til þess. Við erum ekki sérfræðingar í bolfiskvinnslu, okkar sérsvið eru eldisafurðir, og við erum alls ekki að hætta fiskeldinu," segir Sigurður.
Að óbreyttu missa nær allir starfsmenn vinnuna
Fimmtán manns létu af störfum hjá fyrirtækinu í síðasta mánuði, en tíu þeirra var sagt upp störfum. Átján manns eru enn að störfum hjá fyrirtækinu, sem hefur hráefni, það er eldisfisk, til að halda uppi vinnslu fram að áramótum og mögulega einhverjum vikum lengur. Þá starfa jafnframt fimm manns hjá útgerð fyrirtækisins, sem til stendur að selja líka með tíð og tíma samhliða fyrirhuguðum breytingum á starfsemi fyrirtækisins.
Ef Arctic Oddi nær ekki að landa samningum við samstarfsaðila á næstu mánuðum, verður þorra starfsfólksins sagt upp. "Því miður verður það þannig, en við munum halda okkar starfsfólki upplýstu um stöðuna. Við erum að fara úr bolfiskvinnslunni og ef ekki finnst lausn varðandi framtíð hennar, þá verður fleirum sagt upp því miður. Þá munum við bara halda eftir lágmarks fjölda starfsmanna sem við þurfum til að sinna fiskeldinu fram að næstu slátrun sem verður ekki fyrr en næsta haust."
"Við erum langt frá því að leggja árar í bát."
Dýrfiskur, systurfélag Arctic Odda, hefur eldisleyfi fyrir slátrun og vinnslu 3.000 tonna af eldisfiski. Uppbygging fiskeldisins hefur tekið lengri tíma en vonir fyrirtækisins stóðu til, en að sögn Sigurðar mun fiskeldið tryggja hátt í fjörutíu ársstörf þegar það verður komið að fullu á koppinn innan þriggja ára. Þangað til sá áfangi næst mun fyrirtækið ráða starfsfólk inn til að sinna slátrun og vinnslu árstíðabundið. "Við erum langt í frá að leggja árar í bát varðandi fiskeldið, við ætlum að halda áfram að byggja það upp."
Í frétt Kjarnans í gær gagnrýndu Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarkaupstaðar, og Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, fyrirtækið fyrir að hafa ekki tilkynnt hópuppsagnir sem það réðst í í síðasta mánuði. "Það er rétt, við höfðum ekki samband við þá þegar við sögðum fólkinu upp, en bæði stéttarfélaginu og bæjaryfirvöldum mátti vera ljóst hvað stæði til miðað við þau samskipti sem við höfum átt í undanfarnar vikur og mánuði."