Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara á hendur tólf starfsmönnum Húsasmiðjunnar, Byko og Úlfsins byggingavara hófst í dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun. Starfsmennirnir eru ákærðir fyrir samkeppnislagabrot vegna meints verðsamráðs á árunum 2010 og 2011. Ákæru sérstaks saksóknara í málinu er hægt að nálgast hér.
Rannsókn á meintum brotum starfsmannanna hófst í mars 2011 þegar Samkeppniseftirlitið og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra framkvæmdu húsleitir hjá Byko, Húsasmiðjunni og Úlfinum. Málið er gíðarlega umfangsmikið og skjalafjöldinn tæplega fimm þúsund blaðsíður. Á meðal sönnunargagna ákæruvaldsins í málinu eru tölvupóstar og símtöl á milli starfsmanna.
Málið var höfðað og þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness, þar sem fram fór fyrirtaka í málinu þann 20. nóvember síðastliðinn. Aðalmeðferð málsins var þá flutt yfir í Héraðsdóm Reykjavíkur vegna fjölda sakborninga. Vegna þessa er hvorki minnst á aðalmeðferð í málinu í dagskrá Héraðsdóms Reykjaness né Héraðsdóms Reykjavíkur.
Aðalmeðferðinni var framhaldið í morgun og stendur hún til hádegis samkvæmt heimildum Kjarnans. Viðbúið er að aðalmeðferð málsins muni ekki ljúka fyrr en í lok næstu viku.