Aðalmeðferð í máli Sérstaks saksóknara á hendur Hannesi Smárasyni, fyrrverandi stjórnarformanni FL Group, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok janúar. Hannesi var birt ákæran í málinu í nóvember á síðasta ári, en honum er gefið að hafa dregið sér hátt í þrjá milljarða króna af reikningi FL Group, á meðan hann var stjórnarformaður félagsins. Fénu hafi hann svo ráðstafað til Fons eignarhaldsfélags, í eigu Pálma Haraldssonar, í tengslum við umdeild viðskipti með flugfélagið Sterling.
Þá segir í ákærunni að Hannes hafi gefið fyrirmæli um millifærsluna án vitundar eða samþykkis forstjóra, fjármálastjóra eða annarra í stjórn félagsins. Hannes skilaði peningunum aftur tveimur mánuðum síðar, eftir þrýsting meðal annars frá þáverandi forstjóra félagsins, Ragnhildi Geirsdóttur, sem síðar sagði starfi sínu lausu eins og frægt er orðið. Til vara er Hannes Smárason ákærður fyrir umboðssvik, fyrir að misnota aðstöðu sína sem prókúruhafi og valda FL Group verulegri fjártjónshættu.
Kjarninn fjallaði ítarlega um viðskiptafléttuna í októbermánuði í fyrra.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. nóvember í fyrra. Héraðsdómur féllst á frávísunarkröfu Hannesar í mars, en Hæstiréttur Íslands ógilti svo frávísunina í aprílmánuði síðastliðnum. Boðað var til þinghalds í héraðsdómi í maí, en verjanda Hannesar var þá veittur frestur fram í október til að skila greinargerð í málinu, sem hann ákvað svo að gera ekki. Þá var ákveðið að setja aðalmeðferð málsins á dagskrá, sem mun að óbreyttu fara fram 28. janúar næstkomandi.