Aðalmeðferð fer fram í Marple-málinu svokallaða í september næstkomandi. Þetta var ákveðið í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, þegar fyrirtaka fór fram í málinu. Mbl.is greinir frá þessu.
Saksóknari lagði fram ný gögn þegar málið var tekið fyrir í morgun, gögn úr bókhaldskerfi Kaupþings og tölvupóstsamskipti.
Aðalmeðferðin hefst 7. september og er gert ráð fyrir því að hún taki tvær vikur. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri bankans í Lúxemborg og Skúli Þorvaldsson fjárfestir eru ákærð í málinu.
Hreiðar Már og Guðný Arna eru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús er ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum og Skúli er ákærður fyrir hylmingu.
Málið snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla, án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki.
Kjarninn hefur birt ítarlega fréttaskýringu um Marple-málið, sem lesa má hér.
Þá birti Kjarninn einnig ákæruna gegn fjórmenningunum, en hana má lesa hér.