Gísli Rafn Ólafsson þingmaður Pírata skorar á formenn þingflokkanna og Birgi Ármannsson forseta Alþingis að finna leið til þess að lýðræðið fái að njóta sín – að þau mál sem þingmenn leggja fram fái meiri athygli og góðar hugmyndir nái fram jafnvel þó að þær komi ekki frá „lögfræðingum ráðuneytanna“.
Þetta kom fram í máli hans undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag en samið hefur verið um þinglok í þessari viku.
„Hér komum við saman á næstsíðasta degi þessa löggjafarþings. Næstu tvo sólarhringa munum við samþykkja á færibandi frumvörp og þingsályktunartillögur sem samið hefur verið um að klára fyrir þinglok. Næstum öll eiga þessi þingmál það sameiginlegt að þau eru stjórnarmál, skrifuð af ráðuneytum. Einungis fjögur mál skrifuð af þingmönnum, svokölluð þingmannamál, hafa hlotið þá náð að fá umfjöllun og afgreiðslu úr nefnd,“ sagði hann.
Skiptir engu hversu góð málin eru – þau fá ekki afgreiðslu
Þá benti Gísli Rafn á að þessi fjögur mál með framsögumönnum frá fjórum mismunandi stjórnarandstöðuflokkum myndu fá afgreiðslu úr nefnd sem hluti af þinglokasamningum.
„Það er því miður þannig að undanfarin ár hafa nær engin þingmannamál fengið afgreiðslu á þinginu ef frá eru talin þau örfáu mál sem eru hluti af þinglokasamningum á hverju ári. Skiptir þá engu hversu góð málin eru eða hversu margir þingmenn eru meðflutningsmenn á málinu,“ sagði hann og bætti því við að þessi þróun væri aðför að lýðræðinu.
Mörg þingmannamál yrðu þannig til að kjósandi eða kjósendur hefðu samband við þingmenn og bentu þeim á brotalamir í kerfinu. Hann nefndi sem dæmi þingmál Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um tæknifrjóvgun, sem hann og þingmenn úr flestum flokkum væru meðflutningsmenn á.
„Þar er verið að uppfæra lög sem voru skrifuð á öðrum tímum þegar einungis konum, giftum karlmönnum, var leyft að nýta sér þessa tækni. En jafnvel þó að þarna sé um mikilvægar réttarbætur að ræða, jafnvel þótt þarna sé breiður hópur þingmanna úr öllum flokkum á bak við frumvarpið, þá er það eitt af hinum mörgu málum sem enda í grafreit góðra hugmynda nú við þinglok. Eina von okkar þingmanna sem lagt hefur fram 104 þingmannafrumvörp og 128 þingsályktunartillögur er að eitthvað af því sem við leggjum fram sé pikkað upp af ráðuneytum og nýtt seinna,“ sagði hann og skoraði í lokin á formenn þingflokkanna og forseta Alþingis að finna leið til þess að lýðræðið fengi að njóta sín.
Meirihlutinn ræður öllu
Björn Leví Gunnarsson kollegi Gísla Rafns í Pírötum fjallaði einnig um störf þingsins undir sama lið í dag.
„Þetta er væntanlega síðasta skiptið í bili sem þessi dagskrárliður, störf þingsins, er á dagskrá. Ég vildi því kannski aðeins tala um störf þingsins. Ég heyri oft sagt: „Af hverju virkar þingið eins og það gerir? Af hverju er ekki hægt að gera hlutina aðeins öðruvísi, svona eða hinsegin?“ Það er dálítið áhugavert svar við því,“ sagði hann.
Björn Leví útskýrði það þannig að stjórnarfyrirkomulagið á Alþingi væri með þeim hætti að meirihlutinn réði öllu. „Allar spurningar um það hvernig hægt er að gera hlutina öðruvísi beinast því að meiri hlutanum. Allt sem stjórnarandstaðan gerir eru viðbrögð við því sem meirihlutinn gerir. Frumkvæðið getur aldrei verið hjá stjórnarandstöðunni, það virkar ekki þannig af því að meirihlutinn ræður öllu. Það þýðir ýmislegt. Meirihlutinn segir kannski: „Nei, við ætlum bara að gera þetta svona hvað sem tautar og raular og sama hvaða rök eru í málinu.“ Þá er það bara einn staður sem stjórnarandstaðan getur mætt á til að segja hlutina eins og þeir eru, stundum undir rós eða eitthvað álíka, og það er í þennan ræðustól.
Þetta er eina tæki stjórnarandstöðunnar til að reyna að hafa einhver áhrif á stjórnarmeirihlutann og reyna að ná til þeirra í eitthvert samtal þegar ekkert samtal er í boði. Stundum er það þannig að það er einfaldlega verið að láta stjórnarandstöðuna svitna, það er einhver tregagangur í samningaviðræðum. Þá er það bara útkljáð í því hversu lengi stjórnarandstaðan þolir að tala í einhverju máli. Það þarf ekki að tengjast því máli sem verið er að ræða um. Það er bara einfaldlega svona: „Hér er pattstaða og hún er leyst með því að einhver fer upp í ræðustól þangað til pattstaðan leysist“,“ sagði þingmaðurinn.
Hann sagði jafnframt í lok ræðu sinnar að það væri merkilegt að átta sig á því hvað þetta þýddi í heildarsamhenginu. „Það er, held ég, eitthvað sem við ættum að skoða aðeins betur, að hafa fleiri úrræði til þess að útkljá samninga en bara það að ræðustóll Alþingis sé flöskuháls.“