Útvarpsstöðin Radio Iceland hefur útsendingar sínar á hádegi í dag, en stöðin er í eigu Adolfs Inga Erlingssonar, sem starfaði um árabil sem íþróttafréttamaður hjá RÚV. Útvarpsstöðin hyggst þjónusta erlenda ferðamenn á Íslandi, en þar verður allt dagskrárefni á ensku, fréttir á heila tímanum, upplýsingar um færð og veður, stiklur um áhugaverða ferðamannastaði og þá verður einungis leikin íslensk tónlist. Kjarninn sagði frá fyrirætlunum Adolfs Inga í nóvember.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ráðherra ferðamála, mun hleypa útvarpsstöðinni formlega af stokkunum á hádegi í dag, en Adolf Ingi segir mikla tilhlökkun á meðal starfsmanna stöðvarinnar.
Einkennismerki útvarpsstöðvarinnar.
„Þetta er búið að vera býsna langt ferðalag, og nokkrir mánuðir búnir að fara í undirbúning og margt sem hefur þurft að gera. Það er rosa stemmning og spenningur í okkur að fara í loftið í dag og við erum til í slaginn og óhætt að segja hér ríki talsverð eftirvænting,“ segir Adolf glaður í bragði í samtali við Kjarnann.
Lítur framtíðina björtum augum
Adolf kveðst bjartsýnn á velgengni stöðvarinnar. „Það þýðir ekkert annað. Við erum að bjóða upp á kost sem engin annar er að gera á markaðnum, að ná eyrum erlendra ferðamanna á meðan þeir eru að ferðast hérna um landið.“
En hvernig hefur gengið að ná eyrum auglýsenda, til að veðja á stöðina til að ná til erlendra ferðamanna? „Við höfum fengið mjög góðar undirtektir og svo núna þegar við förum í loftið vonumst við til að sjá auglýsingarnar hrannast inn, en það hefur auðvitað verið erfitt að selja í eitthvað sem er ekki komið í gang. En við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð allra aðila í ferðabransanum og annarra, auglýsingastofunum og fleirum, því að mönnum finnst eins og þetta sé eitthvað sem hafi vantað.“
Adolf segir lykilatriði að tryggja gott samstarf við bílaleigurnar til að ná til erlendra ferðamanna á Íslandi, en auk þess muni stöðin auglýsa útsendingartíðnina í flugvélunum. „En lykillinn er fyrst og fremst gott samstarf við bílaleigurnar, því lang stærsti hluti þessara ferðamanna tekur bílaleigubíla og þá er mikilvægt að stöðin sé stillt inn á útvarpstækin í þeim og þeir séu látnir vita af þjónustunni.“
Að sögn Adolfs er í burðarliðnum samstarf við helstu bílaleigur landsins. „Við erum, getum við sagt, að vinna í því að koma á frekar víðtæku samstarfi við bílaleigurnar. En þær eru líka mjög jákvæðar því þær líta á þetta sem frekari þjónustu við sína viðskiptavini.“