Íþróttafréttamaðurinn Adolf Ingi Erlingsson vinnur nú að stofnun nýrrar útvarpsstöðvar á Íslandi, sem verður ætluð erlendum ferðamönnum. Adolf Ingi hefur stofnað einkahlutafélag utan um reksturinn sem fékk úthlutað útvarpsleyfi í vikunni, en nýja útvarpsstöðin kemur til með að heita Radio Iceland FM.
Adolf Ingi hefur undanfarna mánuði unnið að stofnun útvarpsstöðvarinnar, eða allt frá því að hugmyndin kviknaði. "Systir mín kom keyrandi frá Höfn í Hornafirði norður til Akureyrar í sumar, þar sem við vorum í sumarbústað fjölskyldunnar. Þegar hún var komin norður sagði hún: „Veistu hvað vantar? Það vantar útvarpsstöð fyrir ferðamennina!“ Þar með kviknaði hugmyndin, sem hljómaði ágætlega til að byrja með, en svo eftir því sem við ræddum þetta meira þá fannst okkur hún alltaf bara verða betri og betri,“ segir Adolf Ingi í samtali við Kjarnann.
Á útvarpsstöðinni verður í boði fræðsla, skemmtun og fréttir á klukkutíma fresti, að sögn Adolfs Inga, en allt efni verður á ensku og þá verður einvörðungu spiluð íslensk tónlist. Þá verða búnir til sérstakir þættir fyrir mismunandi svæði og staði á Íslandi sem eru áhugaverðir fyrir ferðamenn að heimsækja.
Einkennismerki nýju útvarpsstöðvarinnar.
Mikið ævintýri og mjög metnaðarfullt verkefni
Adolf Ingi á í viðræðum við efnaðan fjárfesti í ferðaþjónustu um aðkomu hans að verkefninu, sem kostar nokkra tugi milljóna að hans sögn. Nú stendur yfir leit að heppilegu húsnæði undir starfsemina og mannaráðningar eru komnar á fullt, en Adolf Ingi gerir ráð fyrir sjö til átta stöðugildum til að byrja með. Þá eru sömuleiðis hafin kaup á nauðsynlegum tækjabúnaði.
„Þetta er heilmikið ævintýri og mjög metnaðarfullt verkefni. Við ætlum að ná til ferðamanna þar sem þeir eru að ferðast um landið á bílaleigubílunum eða sínum einkabílum, og þess vegna þarf að byggja upp dreifikerfi fyrir stöðina og það kostar tugi milljóna króna. Til að byrja með reikna ég með að vera með fimmtán senda víðsvegar um landið og það hefur bara held ég engin útvarpsstöð farið í jafn loftið með jafn mikla dreifingu og við stefnum að til að byrja með. Ég held að bara Rás 2, Rás 1 og Bylgjan séu með meiri dreifingu.“
Adolf Ingi stefnir að því að útvarpsstöðin hefji útsendingar 1. febrúar næstkomandi ef allt gangi að óskum. „Þetta er stórt dæmi, og miklu stærra dæmi en maður gerði sér grein fyrir til að byrja með. En það er með þetta eins og allt annað, eins og að ráðast í framkvæmdir heima hjá sér eða byggja sumarbústað, ef maður hefði gert sér grein fyrir umfangi verkefnisins áður en maður fór af stað, þá hefði maður trúlega aldrei farið af stað,“ segir Adolf Ingi og hlær.
Til að byrja með munu útsendingar Radio Iceland nást á Suðvesturhorni landsins, á Suðurlandi austur á Höfn, á Egilsstöðum, Húsavík, í Eyjafirði, Skagafirði og Borgarnesi og yfir á suðurströnd Snæfellsness.
Spennandi tækifæri fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu
Adolf Ingi hefur miklar væntingar til nýju útvarpsstöðvarinnar, en tekjur hennar verða byggðar á auglýsingasölu og seldum umfjöllunum. „Ég held að þetta sé mjög spennandi kostur fyrir aðila í ferðaþjónustu, því þarna gefum við þeim leið til að ná til ferðamanna á meðan þeir eru hér á landi. Það hefur verið vandamál í markaðssetningu að ná til ferðamannanna, því að þegar þeir koma til landsins þá eru þeir svolítið týndir. Stór hluti þeirra ferðast um landið á eigin vegum, á bílaleigubílum og einkabílum, en þar ætlum við að ná til þeirra með útvarpsútsendingum, sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir þá, til að vekja áhuga þeirra á landi og þjóð, fræða þá og síðan er þetta hreinlega öryggistæki líka,“ segir Adolf Ingi.
„Það hefði til dæmis munað töluverðu að hafa svona útvarpsstöð til að ná til erlendra ferðamanna þegar eldgosið í Holuhrauni skall á, þá hefði verið hægt að nota þennan ventil til að vara þá við. Eins líka þegar það eru viðvaranir út af veðri, flóðum eða hverju sem er. Þarna eiga þeir að geta fengið upplýsingar um allt sem þá varðar um.“