„Þetta eru búnir að vera miklir annatímar og um margt merkilegir. Mig óraði ekki fyrir því þegar ég tók við sem formaður (LÍÚ), að bankakerfið myndi hrynja með tilheyrandi upplausn og erfiðleikum. Vonandi koma svona tíma aldrei aftur,“ segir Adolf Guðmundsson, fráfarandi formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, en hann mun formlega hætta sem formaður á aðalfundi félagsins 31. október næst komandi.
Adolf segir undanfarin sex ár, þar sem hann hefur verið formaður, hafa verið merkilega lífsreynslu en sjávarútveginum íslenska hafi þó tekist að sýna styrk við erfiðar aðstæður. Mikill tími hafi farið í umræður um kerfisbreytingar, veiðigjöld og ýmislegt sem tengist ytra umhverfi sjávarútvegsins, á meðan mörg fyrirtæki hafi verið að berjast í erfiðu rekstrarumhverfi, á meðan betur gekk hjá öðrum. „Þetta hefur verið mjög annasamur tími, en skemmtilegur. Í það minnsta oftast nær,“ segir Adolf.
Adolf, sem er búsettur við Túngötu á Seyðisfirði, segist vel geta hugsað sér að sinna lögfræðistörfum þegar hann hættir hjá LÍÚ og einnig hjá fyrirtækinu Gullbergi ehf. en Síldarvinnslan keypti það fyrir skömmu. Þar hefur Adolf verið framkvæmdastjóri og einn hluthafa árum saman. Hann vill ekki gefa upp kaupverðið, segir það trúnaðarmál, en að hann hafi lagt áherslu á að það við söluna að starfsemin yrði áfram á Seyðisfirði og að starfsfólkið byggi við öryggi og stöðugleika í tengslum við viðskiptin. „Ég get alveg hugsað mér að sinna lögfræðistörfum og ýmsu sem þeim tengist, en mínum störfum hjá Gullbergi er ekki lokið enn.“