María Rut Kristinsdóttir hefur látið af störfum sem aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, og tekið við starfi kynningarstýru UN Women á Íslandi.
María Rut hefur verið aðstoðarmaður Þorgerðar í rúmlega fjögur ár. Í færslu á Facebook segir María Rut að síðustu fjögur ár hafi verið „ofboðslega lærdómsrík en fyrst og fremst fáránlega skemmtileg.“
María Rut segir nýtt tækifæri hafa bankað upp á sem hún gat ekki hafnað. Sem kynningarstýra UN Women mun hún leiða starf kynningarmála og kynningarsviðs samtakanna, hafa umsjón með átaksherferðum og samskiptum við fjölmiðla.
Áður en María Rut tók við starfi aðstoðarmanns Þorgerðar Katrínar starfaði hún sem sérfræðingur á sviði mannréttindamála á skrifstofu mannréttinda- og sveitafélaga í innanríkisráðuneytinu og leiddi þar samráðshóp ráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Hún kom einnig að ýmsum öðrum verkefnum innan innanríkis- og dómsmálaráðuneytisins, þar með talið fullgildingarferlis Istanbúlssamningsins. María hefur jafnframt verið virk í ýmsum félagsstörfum m.a. sem formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, talskona Druslugöngunnar og varaformaður Samtakanna '78.
Í færslu sinni þakkar María Rut Þorgerði fyrir samstarfið. „Og elsku Þorgerður - takk fyrir allt. Traustið, samvinnuna, áskorunina og vináttuna. Ég sé þig á dansgólfinu á Kíkí“
Sumir dagar marka kaflaskil og í dag er einn slíkur hjá mér. Eftir meira en fjögurra ára samstarf með elsku Þorgerði...
Posted by María Rut Kristinsdóttir on Tuesday, March 1, 2022