Sigríður Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra, ýjar að því að gagnrýni Páls Magnússonar, fyrrverandi útvarpsstjóra, tengist ósætti þeirra á milli. Páll gagnrýnir Illuga harðlega í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag og kallar eftir afsögn hans.
„Kannski hefði Páll Magnússon frekar átt að titla sig "ósáttur fyrrv. útvarpsstjóri"“ skrifar Sigríður á Facebook-síðu sína fyrir stundu. Hún fjarlægði færsluna af síðunni skömmu síðar.
Páll hætti sem útvarpsstjóri nokkrum mánuðum eftir að Illugi varð mennta- og menningarmálaráðherra, en ráðuneyti hans fer með málefni RÚV. Ástæðan var sú að ákveðið hafði verið að auglýsa stöðu útvarpsstjóra lausa til umsóknar.
„Nú er liðið eitt sumar síðan upplýst var að menntamálaráðherra bað um og fékk persónulegan fjárstuðning frá aðila sem hann síðan veitti pólitíska fyrirgreiðslu vegna viðskiptahagsmuna í Kína. Pólitísk spilling verður ekki augljósari en þetta,“ skrifaði Páll meðal annars í grein sinni í Fréttablaðinu í dag. Málið fjallar um það að upplýst var í vor að Illugi seldi stjórnarformanni Orku Energy íbúð sína á Ránargötu vegna fjárhagserfiðleika. Hann leigir íbúðina af stjórnarformanninum, en málið komst í hámæli eftir að Illugi fór til Kína og Orka Energy tók þátt í þeirri ferð. Hann vann ráðgjafastörf fyrir fyrirtækið þegar hann var utan þings.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Páll kallar eftir afsögn Illuga og sakar hann um pólitíska spillingu. Það gerði hann einnig í maí síðastliðnum.
Athugasemd kl. 12.05: Sigríður hefur fjarlægt færsluna af Facebook-síðu sinni og þeim upplýsingum var bætt inn í fréttina.