Aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, Vladimir Titov, fór í sjóstangaveiði með Vilhjálmi Vilhjálmssyni, forstjóra útgerðarfyrirtækisins HB Granda, og Kristjáni Loftssyni, hluthafa og stjórnarmanni í HB Granda og framkvæmdastjóri Hvals hf., um borð í íslensku skipi sem heitir Aurora á Faxaflóa um miðjan síðasta mánuð. Stundin greinir frá þessu í dag. Aðrir um borð í skipinu voru Anton V. Vasiliev, sendiherra Rússlands á Íslandi, Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís og kaupsýslumaðurinn Erlendur G. Auðunsson, sem meðal annars hefur stundað kjötútflutning frá Íslandi. Titov var þá staddur hér á landi og fundaði meðal annars í utanríkisráðuneytinu.
Jón Ólafur Halldórsson segir í samtali við Stundina að um skemmtisiglingu hafi verið að ræða en ekki fund. Kristján Loftsson vildi ekki ræða ferðina við blaðamann Stundarinnar.
Sjávarútvegsfyrirtækin Hvalur og HB Grandi tengjast tveimur málum er varða samskipti við rússnesk stjórnvöld. Annars vegar flutti Hvalur um 1.700 tonn af hvalkjöti frá Trömsö í Noregi, norður fyrir Rússland áleiðis til Japan. Hins vegar á HB Grandi mikilla hagsmuna að gæta í Rússlandi, en í kjölfar þess að innflutningsbann Rússa tók gildi fyrir íslenskar afurðir þann 13. ágúst síðastliðinn þá greindi HB Grandi frá því að 17 prósent tekna félagsins 2014 hafi komið til vegna viðskipta á Rússlandsmarkaði.
Íslenskir ráðamenn og hagsmunaaðilar hafa fundað og rætt við rússnesk stjórnvöld í kjölfar bannsins. Kjarninn greindi frá því í gær að Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hitti sendiherra Rússlandi á Íslandi í fyrradag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ræddi við Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, símleiðis daginn eftir að bannið tók gildi og þá hitti Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sendiherra Rússa á Íslandi, sama dag og bannið tók gildi.