Framtakssjóður Íslands hefur samþykkt að selja 32 prósent hlut sinn í Advania til sænsku félagsins AdvInvest. Sænska félagið verðu í kjölfarið skuldbundið til að gera öðrum hluthöfum Advania yfirtökutilboð og verður væntanlega eini eigandi félagsins eftir að því ferli lýkur. Því mun Advania, sem byggir á áratugalöngum íslenskum grunni, verða að fullu í sænskri eigu.
Advania varð til eftir hrun þegar nokkur félög voru sameinuð í eitt stórt upplýsingafyrirtæki. Á meðal þeirra félaga sem sett voru inn í Advania voru EJS og SKÝRR, sem eitt sinn hét Skýrsluvélar ríkisins og var þá opinbert fyrirtæki.
Í sameiginlegri tilkynningu frá Framtakssjóði Íslands og AdvInvest vegna viðskiptanna segir að Advania verði áfram „íslenskt fyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi, enda leggur AdvInvest áherslu á að byggja upp starfsemi Advania á Íslandi auk þess að tvískrá félagið í kauphöll í Reykjavík og Stokkhólmi.“
Við hlutafjáraukningu Advania á síðasta ári framseldi Framtakssjóður Íslands rétt sinn til aukningar til AdvInvest og skuldbatt sig til að tryggja þeim meirihluta með sölu eigin hluta. AdvInvest tryggði hlutafjáraukningu félagsins og eignaðist í kjölfarið 58 prósent hlut í félaginu. Beringer Finance var ráðgjafi kaupenda í viðskiptunum.
Thomas Ivarsson, stjórnarformaður Advania og einn eigenda AdvInvest segir að trú þeirra á Advania hafi styrkst eftir kynni sín af fyrirtækinu. „Við leggjum áfram áherslu á að byggja upp starfsemi Advania á Íslandi samhliða alþjóðlegri starfsemi félagsins. Þá er stefnt að því að Advania verði tvískráð í kauphöll á Íslandi innan tveggja ára og í kjölfarið í Stokkhólmi.“
Herdís Fjelsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, segir að innkoma nýrra fjárfesta í tveggja milljarða hlutafjáraukningu félagsins hafi verið mikilvægt skref í að efla félagið sem hefur skilað sér í verðmætara félagi. „Samstarfið við þá hefur gengið vel og meðeigendur okkar sem kaupa allan hlut okkar félaginu eru að okkar mati traustir eigendur sem vinna munu að framgangi félagsins í samræmi við þau markmið sem við höfum haft um að félagið verði á endanum skráð í kauphöll.“