Pär-Jörgen Pärson, einn eigenda fjárfestingafélagsins Northzone, flutti áhugaverða hugvekju á kynningarfunndi í Scandinavia House í New York í fyrrakvöld. Kjarninn var á svæðinu og fylgdist með gangi mála. Þar ræddi hann sérstaklega um hvað Norðurlöndin hefðu fram að færa fyrir erlenda fjárfesta og reyndi að skýra hvers vegna svo mikill kraftur væri í nýsköpunarumhverfinu í Svíþjóð, þar sem rætur hans væru.
Northzone hefur tekið þátt í mörgum verkefnum sem hafa gengið vel í Svíþjóð þar á meðal stofnun Spotify og Soundcloud, auk þess sem fjölmörg önnur verkefni eru í eignasafni félagsins.
Pärson hafði sterkar skoðanir á því sem hann kallaði skandinavíska módelinu, og bar það saman við það bandaríska. Hann sagðist ekki vera í nokkrum einasta vafa um það, að hið skandinavíska væri betra, og að auðvelt væri að benda á hagtölur og tölur um samfélagsgerð og stéttaskiptingu, því til stuðnings. Þá hefðu ákvarðanir stéttarfélaga í Svíþjóð, á árdögum internetsins, reynst afar heilladrjúgar fyrir þjóðina því þau hefði beitt sér fyrir því að nánast öll heimili í Svíþjóð hefðu verið komin með nettengingu á undan flestum öðrum. Í hans huga hefði þetta skipt miklu máli, og áhrifin af því að hafa forskot eins og þetta, væru enn að koma fram. Saga internetsins væri það stutt! Mikil og djúp þekking á internetinu væri víða í Svíþjóð.
En þetta væri ekki aðalatriðið þegar kæmi að atvinnulífinu um þessar mundir. Þar skipti mestu máli að það hefði loksins tekist, eftir áratuga sögu mistaka, að gera nýsköpunarumhverfið að mest spennandi staðnum í hagkerfinu til að vinna á. Ungt fólk sem kæmi úr háskóla í Svíþjóð, vildi komast inn í sprotaumhverfið og frumkvöðlastarfsemi. Þetta hefði alls ekki alltaf verið svona, en í huga Pärsons væri þetta æskilega staðan fyrir bæði háskóla og atvinnulíf.
Áhrifarík og skemmtileg hugvekja hjá þessum litríka fjárfesti...