Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum á miðvikudag nokkrar tillögur sem ætlað er að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu. Þessum tillögum kom Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í gær áfram til fjárlaganefndar sem vinnur nú að því að leggja lokahönd á fjármálaáætlun fyrir þinglok.
Sagt var frá tillögum ríkisstjórnarinnar í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins í gær. Aðgerðirnar, sem eru bæði á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs, eiga að draga úr halla á ríkissjóði hraðar en gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun eins og hún liggur fyrir þinginu, og segir í tilkynningu stjórnvalda að það sé gert bæði í því skyni að „draga úr þenslu og byggja upp styrk ríkissjóðs til að mæta óvæntum áföllum framtíðar“.
Heildarumfang tillagnanna eru 26 milljarðar, eða um 0,7 prósent af vergri landsframleiðslu. Í tilkynningu stjórnvalda segir að þessar aðgerðir eigi „að vega á móti þörf fyrir stýrivaxtahækkanir“ og að tillögurnar verði nánar útfærðar í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.
Nýtt umferðargjaldakerfi – enn allt í myrkri um útfærslu
Efst á blaði yfir nýjar og auknar tekjur sem ríkisstjórnin ætlar sér að sækja er flýting innleiðingar á nýju gjaldtökukerfi í umferðarmálum. Unnið hefur verið að breytingum á gjaldtökukerfi umferðar um nokkra hríð og hefur fjármálaráðherra sagt að ýmsir kostir komi til greina í þeim efnum.
Bjarni ræddi þessi mál meðal annars í samtölum við Kjarnann síðla á síðasta ári. Þar nefndi hann sjálfvirknilausnir og tollahlið á meðal valkosta þegar kæmi að gjaldtöku af umferð. „Þar koma margir kostir til greina, eins og við sjáum bara í öðrum löndum. Það er hægt að lesa af mælum, það er hægt að vera með tollhlið, það er hægt að nota sjálfvirknilausnir og fleira. Þetta er eitthvað sem við ætlum að taka til skoðunar og hrinda í framkvæmd,“ sagði Bjarni.
Kjarninn hefur óskað eftir frekari upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu um hvort búið sé að taka ákvarðanir um fyrirkomulag nýrrar gjaldtöku á umferð, en í tilkynningu stjórnvalda er talað um að unnið sé „að innleiðingu einfaldara og skilvirkara tekjuöflunarkerfi, sem samræmist þörf á áframhaldandi útgjöldum við nýframkvæmdir, viðhald og rekstur vegakerfisins“.
Óljóst er af tilkynningu stjórnvalda hversu miklar nýjar tekjur eiga að koma inn með nýju fyrirkomulagi tekjuöflunar af bílaumferð.
Skattar hækkaðir á áfengi og tóbak í fríhöfninni
Á tekjuhliðinni ætlar ríkisstjórnin innleiða nokkrar sértækar gjaldabreytingar og það sem er efst á blaði í þeim efnum er að til stendur að lækka afsláttinn af áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi í fríhöfninni frá því sem nú er. Fleiri krónur af hverri seldri vínflösku í Leifsstöð munu því renna til ríkisins. Óljóst er hvað þetta á að skila mörgum krónum í ríkiskassann á ársgrundvelli.
Ríkisstjórnin leggur einnig til að fyrirkomulag og umfang verðmætagjalds vegna sjókvíaeldis verði endurskoðað og að varaflugvallagjald verði lagt á. Einnig er fyrirhugað að frá og með árinu 2024 og verði ráðist í „tekjuöflun af ferðamönnum í samráði við ferðaþjónustuna samhliða áframhaldandi innviðauppbyggingu og álagsstýringu í tengslum við vaxandi straum ferðamanna til landsins“ eins og það er orðað í tilkynningu stjórnvalda.
Á tekjuhliðinni stendur einnig til að uppfæra krónutölugjöld með nýrri áætlun um verðlagsþróun, en þau eiga ekki að hækka umfram hana.
Ferðakostnaður ríkisins og framlög til stjórnmálaflokka lækka
Á útgjaldahliðinni er efst á blaði að til stendur að lækka ferðakostnað ríkisins varanlega, en um er að ræða 640 milljón króna lækkun samkvæmt tilkynningu stjórnvalda. „Dregið hefur úr þörf á ferðalögum í samræmi við loftslagsstefnu Stjórnarráðsins og í kjölfar heimsfaraldursins,“ segir í tilkynningunni.
Einnig leggur ríkisstjórnin til að aðhald málefnasviða verði tímabundið á árinu 2023 í samræmi við forsendur fjárlaga ársins 2022, að því frátöldu að ekkert aðhaldsmarkmið verði sett fyrir heilbrigðis- og öldrunarstofnanir.
„Þannig verði almennt aðhald 2% utan þeirra liða sem vaninn er að undanskilja en 0,5% á framhalds- og háskóla. Engin aðhaldskrafa er sett á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis, sjúkratryggingar og dómstóla, að viðbættum heilbrigðis- og öldrunarstofnunum,“ samkvæmt tilkynningu stjórnvalda.
Ríkisstjórnin leggur einnig til að nýju útgjaldasvigrúmi sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjármálaáætlun verði frestað og að almennt útgjaldasvigrúm málefnasviða árið 2023 verði 2,1 milljarðar króna, í stað áforma um 4,1 milljarð króna. Áformað svigrúm verði síðan fært aftur inn í ramma málefnasviða næstu tvö árin.
Nokkrar aðrar breytingar eru svo lagðar til. Þar á meðal er frestun á „nokkrum“ ótilgreindum útgjaldamálum fram til ársins 2024 og lækkun á framlögum til stjórnmálaflokka. Samkvæmt svari frá fjármálaráðuneytinu stendur til að lækka framlögin um 5 prósent og festa þau við krónutölu en ekki vísistölu. Í fyrra runnu alls 728,2 milljónir króna úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka.
Einnig ætla stjórnvöld að hliðra helmingi sérstaks eins milljarðs króna viðbótarframlags til menningar mála vegna ársins 2023 til ársins 2024, sem þýðir að 500 milljóna framlag mun koma til á hvoru ári.
Sumum fjárfestingum seinkað
Ríkisstjórnin ætlar svo einnig að endurskoða fjárfestingaráform hins opinbera, að sögn „einkum til þess að endurspegla betur mat á þörf fyrir viðbótar fjárveitingar á næsta ári“.
„Að undanförnu hafa tiltekin fjárfestingarverkefni dregist frá því sem áætlanir gáfu til kynna m.a. þar sem framkvæmdageta hefur reynst minni. Þá er gert ráð fyrir að hliðra verkáföngum aftur um eitt ár í einhverjum tilfellum þar sem færi gefst á að afla hagstæðari tilboða síðar í ljósi stöðunnar á byggingamarkaði,“ segir um þetta í tilkynningu stjórnvalda.