Fargjöld í innanlandsflugi hafa hækkað um u.þ.b. tíu prósent frá febrúar 2021 og þar til í febrúar á þessu ári, samkvæmt því sem fram kemur í skriflegu svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn frá Jódísi Skúladóttur þingmanni Vinstri grænna.
Þingmaðurinn spurði ráðherrann um ýmsa hluti sem varða Loftbrú, hið nýlega úrræði sem veitir íbúum með lögheimili fjarri höfuðborgarsvæðinu og í Vestmannaeyjum 40 prósent afslátt af flugfargjöldum fyrir allt að sex flugleggi á ári. Meðal annars spurði Jódís, sem er þingmaður Norðausturkjördæmis, hvort merkja mætti breytingar á flugfargjöldum frá því að Loftbrúin kom til sögunnar árið 2020.
Fyrrgreint mat á verðbreytingum flugfargjalda innanlands byggir á tölum frá Vegagerðinni um greiðsluþátttöku vegna Loftbrúar. Í svari ráðherra segir að vert sé að hafa í huga að eldsneytisverð hafi hækkað mikið frá því að Loftbrúin kom til sögunnar, auk þess sem hafa ætti í huga að verðsamanburðurinn nái einungis til þeirra farmiða sem ríkið tekur þátt í að greiða fyrir í gegnum Loftbrúna.
Hið síðarnefnda ætti þó ekki að bjaga myndina að ráði, þar sem hægt er að kaupa hvaða flugmiða sem er í gegnum Loftbrúnna – það eina sem breytist er það að ríkið niðurgreiðir 40 prósent af fargjaldinu.
Rúmlega einn flugleggur á mann á fyrstu 18 mánuðunum
Um 60 þúsund manns eiga rétt á því að nýta sér afsláttarfargjöldin sem hægt er að fá með Loftbrúnni og á hver og einn einstaklingur rétt á því að fá afslátt af sex flugleggjum á ári.
Í svari ráðherra við fyrirspurn Jódísar segir að notkun Loftbrúarinnar sé „stöðugt að aukast“ og að í mars hafi tæplega 70 þúsund flugleggir verið bókaðir á þeim 18 mánuðum sem liðnir voru frá því að Loftbrúin fór í loftið, eða rúmlega einn flugleggur á hvern notanda.
Í skriflegu svari ráðherrans segir einnig að ef notkunin haldi áfram að aukast komi „vel til greina“ að endurskoða þann fjölda flugleggja sem hver einstaklingur geti fengið niðurgreidda, en sá fjöldi verði þó ávallt háður fjárveitingum til verkefnisins, en áætlaður árlegur kostnaður við Loftbrúna voru 600 milljónir, þegar verkefnið var kynnt í sumarlok 2020. Í fyrra nam kostnaðurinn við Loftbrúna þó einungis 367 milljónum.