Það var hálfeinkennilegt að fylgjast með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í fréttum Stöðvar 2 um helgina, þar sem hinar hörðu kjaradeilur voru umfjöllunarefnið. Sigmundur Davíð sagði stöðuna vera alvarlega, talaði töluvert um að nú snérust deilurnar í reynd um að fólk „skynjaði það, að nú væri eitthvað til skiptanna“ og vitnaði þar til kaupmáttaraukningar.
Í þetta skiptið væri í reynd verið að tala um, að sumir hópar óttuðust að fá minna en aðrir.
Hvers vegna ætli þessi tilfinning sé uppi hjá launafólki? Hvaðan ætli væntingar með þessa hvata séu sprotnar? Getur verið að það tengist því, að stjórnvöld ákvaðu að gefa sumu fólki 80 milljarða úr ríkissjóði, undir fölsku flaggi leiðréttingar? Getur verið að það tengist því að læknar sömdu um meira en 20 prósenta launahækkun, meðan fjölmargar aðrar stéttir, sem eru einnig með alþjóðlega menntun, fá ekki boð um slíkt og geta vafalítið aldrei fengið slíkar hækkanir?
Forsætisráðherrann ætti kannski að hugsa um þessar spurningar, og athuga hvort það geti verið að ákvarðanir stjórnvalda við hagstjórn landsins, séu mögulega að hafa áhrif á kjaraviðræðurnar.