Frá því árið 2017 hefur verið hægt að nálgast upplýsingar um hagsmunatengsl dómara við Hæstarétt Íslands á vef dómstólsins. Það var eins og margir eflaust muna, út af „soldlu“, eins og stundum er sagt, en undir lok árs 2016 var fjallað um hlutabréfaeign hæstaréttardómara í fjölmiðlum.
Þá umfjöllun kallaði Skúli Magnússon fyrrverandi formaður Dómarafélagsins og nú umboðsmaður Alþingis eitt sinn „þaulskipulagða aðgerð“ til að koma höggi á trúverðugleika íslenskra dómstóla. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu árið 2020 að tap eins dómara af hlutabréfaeign í Landsbanka Íslands í hruninu hefði verið svo verulegt að draga hefði mátt í efa óhlutdrægni hans og hefur endurupptökunefnd fallist á endurupptöku nokkurra mála sem tengjast hruninu vegna hlutabréfaeignar dómara í föllnu bönkunum.
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata spurði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að því, í skriflegri fyrirspurn því hvort hann teldi ástæðu til þess að dómarar við Landsrétt birtu sambærilegar upplýsingar um hagsmunatengsl sín og hæstaréttardómarar gera í dag, þar sem Landsréttur hafi frá stofnun árið 2018 haft lokaorðið í flestum dómsmálum sem inn á borð dómstóla koma.
Í svari við fyrirspurn þingmannsins kemur fram að ráðherra hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að birta frekari upplýsingar um hagsmuni landsréttardómara. Í svari ráðherra segir að við ákvörðun um hvaða upplýsingar dómurum sé skylt að birta opinberlega vegist „annars vegar á sjónarmið um aðgengi almennings að upplýsingum um dómara og hins vegar friðhelgi einkalífs og persónuvernd þeirra sem gegna embætti dómara“ og að mikilvægt sé fundið sé hæfilegt jafnvægi í þeim efnum.
Ráðherra bendir svo einnig á það í svari sínu að lögum samkvæmt setji nefnd um dómarastörf reglur um hvers konar aukastörf, eignarhald í hlutafélögum, eða þátttaka í starfi annarra félaga og samtaka geti samrýmst embættisstörfum dómara.
Bendir ráðherra jafnframt á að það eru í gildi reglur frá 2017 þess efni að aðilar dómsmála eigi rétt á að fá upplýsingar um aukastörf dómara sem fara með mál þeirra, sem og eignarhald í félögum eða atvinnufyrirtækjum, ef nefnd um dómarastörf telji tilefni til þess.
„Með öðrum orðum þá á aðili dómsmáls rétt á að fá upplýsingar um hagsmunatengsl dómara til að gæta hagsmuna sinna, umfram það sem leiðir af skyldu til að birta slíkar upplýsingar opinberlega,“ segir í svari ráðherra.
Engar reglur knýja fram hagsmunaskráningu hæstaréttardómara
Andrés Ingi spurði dómsmálaráðherra einnig að því á hvaða lagagrundvelli birting á upplýsingum um hagsmunatengsl hæstaréttardómara væri byggð. Svarið er það, að engin sérstök krafa er um það í lögum að hæstaréttardómarar birti hagsmuni sína með þeim hætti sem þeir hafa gert undanfarin ár.
Dómsmálaráðuneytið aflaði upplýsinga frá Hæstarétti Íslands um þetta og fékk þau svör að dómarar við Hæstarétt hafi að eigin frumkvæði ákveðið að birta meiri upplýsingar á vef réttarins en lög gera kröfur um, en samkvæmt reglum sem settar voru árið 2018 á að birta opinberlega upplýsingar um fyrri störf dómara og þau aukastörf sem dómari gegnir.