Einu sinni var frambjóðandi sem var kosinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn. Eftir að hafa tekið sæti á þingi fékk þingmaðurinn þar að auki sæti í atvinnuveganefnd Alþingis, enda hokinn af reynslu eftir að hafa kynnst sjávarútveginum af eigin raun. Bæði sem stofnandi, eigandi og stjórnandi síns eigins útgerðarfélags, og sömuleiðis sem meðeigandi í stóru og rótgrónu sjávarútvegsfyrirtæki í eigu fjölskyldu hans í heimabænum Grindavík.
Sjö mánuðum eftir að hafa verið kosinn á þing ákvað hann svo að segja af sér stjórnarformennsku í útgerðarfélaginu sínu og fól eiginkonu sinni stjórnartaumana, en einhverju áður hafði hann fært allan eignarhlut sinn sömuleiðis yfir til sinnar heittelskuðu.
Einn góðan veðurdag þegar inn á borð nefndarinnar, sem þingmaðurinn átti sæti í, kom svo frumvarp flokksfélaga hans um úthlutun makrílkvóta, sem myndi færa fyrirtæki „konu“ hans tugmilljóna króna makrílkvóta, taldi hann sig ekki vanhæfan til að fjalla um frumvarpið.
Pælingu Kjarnans er þennan daginn beint til þín lesandi góður: er þessi saga sönn eða er um skáldskap að ræða?