Sigurður Ingi Jóhannsson hefur nú nánast algjörlega og endanlega verið gerður afturrækur með áform sín um flutning Fiskistofu til Akureyrar. Í gærkvöldi viðurkenndi hann mistökin, sagði að margt hefði verið hægt að gera betur og að hann sé ekki yfir það hafinn að læra af verkum sínum. Það er ágætt hjá ráðherra að viðurkenna þetta loksins, en áður var hann búinn að bakka með hraðan flutning stofnunarinnar.
Starfsfólk Fiskistofu hefur haft uppi mikla og málefnalega gagnrýni á ákvörðunina sem hefur haft sitt að segja, og kvartað var meðal annars til umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu í vikunni að Sigurður Ingi hafi ekki ástundað vandaða stjórnsýsluhætti í málinu. Hann hafi ekki heldur fengið ráðgjöf um álið eins og honum beri að gera samkvæmt lögum.
Þetta er í annað sinn á þessu ári, sem enn telur innan við fjóra mánuði, sem umboðsmaður Alþingis fjallar um mál sem varða þessa lagaskyldu ráðherra um að leita sér ráðgjafar, en hún var líka til umfjöllunar í áliti umboðsmanns í lekamálinu. Umboðsmaður bendir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra sérstaklega á þetta í áliti sínu um Fiskistofu. Það verður fróðlegt að heyra hvort forsætisráðherrann hefur eitthvað um þetta að segja.
Og svo er það annað. Eftir allt þetta hringl með stofnunina er komið í ljós að ekkert verður af flutningi Fiskistofu næstu árin. Það er sigur fyrir starfsmenn en þóttt þeir hafi sigrað ráðherrann í málinu hefur það ekki verið án fórna.
Fiskistofustjóri hefur sagt að óvissan um framtíðina hafi haft gríðarlega slæm áhrif, stofnunin sé farin að liðast í sundur. Næstum tveir af hverjum tíu starfsmönnum eru þegar hættir, og starfmannaveltan því gríðarlega há, og ekki hefur verið hægt að ráða í öll störf sem losna vegna óvissunnar.
Nú er jafnframt búið að eyða tæpu ári í einhvern rússibana um þessi mál með tilheyrandi tímaeyðslu starfsfólks Fiskistofu og starfsfólks í ráðuneytinu. Þetta er tími sem maður ímyndar sér að hefði vel mátt nýta í annað. Til hvers var unnið? Af hverju var ekki bara hægt að hugsa hlutina til enda áður en farið var af stað?