Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir stjórnarflokkanna greinilega ekki ná sameiginlegum skilningi um hvernig stjórnun fiskveiða eigi að vera háttað. Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn einangraður í afstöðu sinni hvað varðar eignarhald á fiskveiðiauðlindinni og að það hljóti að vera áfall fyrir ríkisstjórnina að enn eitt stóra málið steyti á skeri innan hennar.
Greint var frá því í gær að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, muni ekki leggja fram frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu á yfirstandandi þingi. Í frétt RÚV um máli sagði að ríkisstjórnin hafi enn ekki náð samkomulagi um hver eigi að fara með forræði yfir kvótanum.
Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á fiskveiðistjórnunarkerfið að byggja á aflamarkskerfi og áfram verði unnið með tillögu sáttanefndarinnar svokölluðu sem starfaði á síðasta kjörtímabili, þar sem lagt er til að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun. Nú er ljóst að stjórnarflokkarnir eru ekki að ná saman um málið og frumvarp um breytingar á kerfinu verður ekki lagt fram á þessu þingi, en það hefur verið að mestu tilbúið frá því í fyrrahaust.
Sjálfstæðisflokkurinn einangraður
Katrín segir þessa stöðu sýna hversu djúpt ágreiningurinn um eignarhald á auðlindinni ristir. "Veiðiréttindin eru hluti auðlindarinnar og mín skoðun hefur verið sú að það sé eðlilegt að ríkið fari með þau í umboði þjóðarinnar; og veiti svo útgerðarfyrirtækjum leyfi til að nýta þessa sameiginlegu auðlind. Stjórnarflokkarnir ná greinilega ekki sameiginlegum skilningi á þessu og það hlýtur að vera áfall fyrir ríkisstjórnina að enn eitt stóra málið steyti á skeri. Stóra fréttin hlýtur hins vegar að vera sú að Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera einangraður í afstöðu sinni hvað varðar eignarhald á auðlindinni – því að ég myndi telja að aðrir flokkar séu sammála um að auðlindin og veiðiréttindin eigi að vera þjóðareign og á forræði ríkisins."