Ofbeldisbrotum, brotum gegn valdstjórninni og auðgunarbrotum, á borð við rán, þjófnað og gripdeildir, hefur fækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Fíkniefna- og kynferðisbrotum hefur hins vegar fjölgað. Þetta kemur fram í tölfræðiskýrslum ríkislögreglustjóra. Nýjasta skýrslan var birt í apríl síðastliðnum.
Á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað er íslenska lögreglan að vígbúast með 150 MP5-hríðskotabyssum sem norski herinn gaf þeim.
Hríðskotabyssurnar, sem verða í einhverjum tilfellum geymdar í lögreglubílum, bárust til landsins í upphafi árs. Síðan þá hafa lögreglumenn verið þjálfaðir í meðferð vopnanna.
Ofbeldisbrotum og brotum gegn valdstjórn fækkar
Afbrotum hefur fækkað jafnt og þétt á Íslandi undanfarin ár. Samkvæmt tölfræði sem embætti ríkislögreglustjóra birti í apríl síðastliðnum hefur afbrotum í heild fækkað úr 73.039 árið 2008 í 51.282 í fyrra. Afbrot voru því um 42 prósent fleiri árið 2008 en þau voru í fyrra.
Vert er að taka fram að fækkunin er að langmestu leyti tilkomin vegna þess að bókfærð umferðarlagabrot voru um 19 þúsund færri í fyrra en árið 2008, en slík brot eru rúmlega 70 prósent allra bókfærðra afbrota í tölfræði ríkislögreglustjóra.
Norski herinn gaf íslensku lögreglunni um 150 MP5-hríðskotabyssur í byrjun árs. Upplýst var um þetta í DV í byrjun viku.
Þegar ofbeldisbrot eru skoðuð sérstaklega kemur í ljós að þau voru aðeins fleiri í fyrra, alls 1.188, en árið 2012 en svipað mörg og árið 2009-2011. Miðað við árið 2008, þegar 1.316 ofbeldisbrot voru framin, var ástandið í fyrra ágætt. Brotin voru tæplega ellefu prósent fleiri á hrunárinu 2008 en á árinu 2013.
Brotum gegn valdstjórninni, sem í felst meðal annars hótanir/ofbeldi gagnvart lögreglu og að fyrirmælum lögreglu sé ekki hlýtt, hefur einnig fækkað á undanförnum árum. Árið 2008 voru 432 slík skráð í tölfræði ríkislögreglustjóra. Í fyrra voru þau 321 talsins, eða 34 prósent færri en þau voru árið 2008.
Auðgunarbrotum, á borð við rán, þjófnað og gripdeildir hefur líka fækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Árið 2009 var metár í þeim brotaflokki þegar 9.561 slík brot voru skráð. Í fyrra voru þau 6.014. Auðgunarbrot voru því 60 prósent fleiri fyrir fimm árum síðan en þau voru í fyrra.
Brot gegn friðhelgi voru 565 í fyrra, eða 30 færri en árið 2012 og 50 færri en árið 2010. Árin 2009 og 2011 voru þau færri en í fyrra og ef miðað er við árið 2008 þá standa þau nánast í stað.
Fleiri fíkniefna- og kynferðisbrot
Fíkniefnabrotum hefur hins vegar fjölgað umtalsvert. Alls voru framin 2.183 slík brot í fyrra samkvæmt tölfræði ríkislögreglustjóra. Um 70 prósent fíkniefnabrota er vegna vörslu og meðferðar á fíkniefnum og er aukning skráðra brota langmest í þeim frotaflokki. Sala, dreifing og innfluttningur á fíkniefnum hefur einnig aukist en þeir sem voru gripnir við að framleiða fíkniefni á árinu 2013 voru færri en tvö árin á undan.
Þá hefur orðið sprenging í skráðum kynferðisbrotum. Í fyrra voru þau tvisvar sinnum fleiri en þau voru að jafnaði árin á undan. Ástæðan er meðal annars aukin vitundarvakning og umfjöllun fjölmiðla, sem leiddi til þess að fjöldi þolenda kynferðisbrota stigu fram.