Vísindatímaritið Lancet hefur birt niðurstöður rannsóknar á áfengisneyslu, þar sem neyslumynstur í 204 löndum var skoðað og borið saman við skýrslu um sjúkdómavæðingu á heimsvísu til þess að áætla það magn áfengis sem fólk getur neytt án þess að stofna heilsu sinni í hættu.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru margþættar, en benda meðal annars til þess að fólk 39 ára og yngra ætti að halda sig alfarið frá áfengi, en að eldra fólk geti haft gagn af því að drekka það í litlu magni. Þá benda niðurstöðurnar til þess að ráðlegt geti verið að miða ráðleggingar um áfengisneyslu við aldur og staðsetningu.
Við rannsóknina kom í ljós að á árinu 2020 neyttu 1,34 milljarðar manneskja áfengis í óhóflegu magni. Líklegasti hópurinn til þess að gera slíkt séu karlmenn á aldrinum 15 til 39 ára og ættu ráðleggingar til þessa hóps því að vera lægri en til annarra, en samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar geta karlmenn á þessum aldri aðeins neytt eins tíunda af hefðbundnum áfengisdrykk án þess að stofna heilsufari sínu í hættu.
Hvað eldra fólk varðar bendir nokkuð til þess að hófleg neysla geti haft lítilsháttar ávinning, en ráðlagður dagsskammtur samkvæmt rannsókninni er þó undir tveimur áfengum drykkjum á dag.
Forsvarsmenn rannsóknarinnar leggja því til að ráðleggingar um áfengisneyslu verði aðlagaðar aldri, en gera sér þó fulla grein fyrir því að óraunhæft sé að ætlast til þess að ungt fólk hætti neyslu áfengis. Hins vegar sé mikilvægt að koma á framfæri nýjustu upplýsingum svo fólk geti tekið meðvitaða ákvörðun um eigin áfengisneyslu.