Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sett fram til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda áform um lagasetningu, þess efnis að lögum um rammaáætlun verði breytt með þeim hætti að „tæknileg aflaukning“ virkjana sem eru í rekstri þurfi ekki lengur að fara í gegnum ferli rammaáætlunar. Umsagnarfrestur um málið er til 18. febrúar.
Breytingarnar sem eru fyrirhugaðar myndu fela í sér að tæknileg aflaukning starfandi virkjana þyrfti ekki lengur að fara til umfjöllunar hjá rammaáætlun sem sérstakur virkjanakostur. Tekið er fram að slíkar framkvæmdir þyrftu þó eftir sem áður ef til vill að fara í gegnum umhverfismatsferli.
Í umfjöllun ráðuneytisins um fyrirhugaðar lagabreytingar í samráðsgáttinni segir að samkvæmt núverandi lögum um rammaáætlun frá 2011 geti umfjöllun um einstaka virkjunarkosti í verndar- og orkunýtingaráætlun tekið allt að fjögur ár, frá því að virkjunaraðili sendir inn umsókn um mat á virkjunarkostinum og þar til virkjunarkosturinn er afgreiddur inn í orkunýtingar-, bið- eða verndarflokk af Alþingi.
„Með frumvarpinu er ætlunin að undanskilja tæknilegar aflaukningar á virkjunum sem nú þegar eru í rekstri umfjöllun rammaáætlunar. Slíkar framkvæmdir munu eftir sem áður þurfa að fara í gegnum umhverfismat samkvæmt lögum þar að lútandi,“ segir í umfjöllun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Umframrennsli
Í skjali þar sem áformin um lagasetninguna eru nánar útskýrð segir að almennt sé „tæknileg aflaukning í vatnsaflsvirkjunum sem þegar eru í rekstri til þess hugsuð að nýta umframrennsli sem þegar er til staðar í hinu virkjaða vatnsfalli, t.d. vegna aukinnar bráðnunar jökla. Um er að ræða að auka afkastagetu véla í stöðvarhúsi þannig að umframrennslið, sem áður var veitt fram hjá stöðvarhúsi, nýtist til raforkuframleiðslu.“
Segir í þessu sama skjali að þessar aflaukningar feli ekki í sér „stórfelldar breytingar á þeim atriðum sem mestu skipta við mat á umhverfisáhrifum virkjanna, t.d. yfirborðshæð og yfirborðsflatarmáli lóna, lengd og umfang skurða og stíflna í vatnasviði ofan virkjunar o.s.frv.“
Ennfremur segir í skjalinu að þar sem málsmeðferð rammaáætlunar miði að því að að vega og meta áhrif virkjunarframkvæmda á umhverfi, samfélag og efnahag sé ekki talið rétt að skylda tæknilegar aflaukningar inn í ferli rammaáætlunar, þar sem geri megi ráð fyrir því að umhverfisáhrif tæknilegra aflaukninga séu takmörkuð.
Rammaáætlun á leið fyrir þingið enn einu sinni
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ráðherra til þingsályktunar um 3. áfanga rammaáætlunar til þingflokka stjórnarflokkanna þriggja til afgreiðslu.
Í tilkynningu um þetta á vef stjórnarráðsins segir að þingsályktunartillagan hafi verið lögð fram í sömu mynd og á 151., 146. og 145. löggjafarþingi, en á þeim þingum náðist ekki að afgreiða málið.
Í tilkynningunni segir að svæði sem Alþingi hafi þegar samþykkt í verndarflokk og hafi verið friðlýst í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun hafi verið felld úr tillögunni. Þetta eru Hólmsárvirkjun við Einhyrning, Tungnaárlón, Gýgjarfossvirkjun, Bláfellsvirkjun, Gjástykki, Brennisteinsfjöll, Hverabotn, Neðri-Hverdalir, Kisubotnar og Þverfell.