AFP fréttastofan hefur beðist afsökunar á því að hafa sagt franska milljarðamæringinn Martin Bouygues látinn. Bouygues, sem er 62 ára gamall, er hins vegar á lífi og hinn hressasti. Auður hans er meðal annars fólginn í hlutabréfum í félagi hans, Bouygues Telecom, auk þess sem hann hefur komið að fjárfestingum í mörgum iðnfyrirtækjum í Frakklandi.
AFP fréttastofan segir í frétt um þetta, að málið sé litið alvarlegum augum og eigi sér rót í misskilningi milli blaðamanns AFP og bæjarstjórans í þorpi í Frakklandi.
Michele Leridon, fréttastjóri AFP, segir málið litið mjög alvarlegum augum.
„Við tökum þessu máli mjög alvarlega og höfum sett af stað rannsókn meðal starfsfólks á ritstjórninni til að skilja hvernig slík mistök gætu hafa átt sér stað [...] Við biðjum Martin Bouygues, ástvini hans, samstarfsmenn og alla notendur okkar innilegrar afsökunnar,“ segir Leridon.
AFP apologises to French industrialist after death reported http://t.co/sTxClxphFO
— Agence France-Presse (@AFP) February 28, 2015