Minnihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis segir að afskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, af rannsókn lekamálsins hafi verið „alvarleg og í hæsta máta ámælisverð“. Minnihlutinn segir að það sé grundvallaratriði að Hanna Birna hafi sagt af sér embætti vegna málsins og það hljóti að teljast ákveðnar lyktir í málinu hvað varðar þinglega og pólitíska ábyrgð hennar.
Minnihluti nefndarinnar skilaði af sér skýrslu til þingsins nú undir kvöld. Hana má lesa í heild sinni hér.
Gerðar eru alvarlegar athugasemdir um upplýsingagjöf hennar um málið til Alþingis. „Minni hlutinn telur að ráðherra hefði getað svarað spurningum þingmanna varðandi það hvort minnisblaðið/ samantektin gæti hafa komið frá ráðuneytinu mun fyrr og með skýrari hætti við umfjöllun málsins á þingi og upplýst að útbúið hefði verið minnisblað í ráðuneytinu um málið en að þar hefðu ekki verið þær meiðandi persónuupplýsingar sem komu fram í fjölmiðlum.“
Þegar Hanna Birna hafi sagt í þingsal að þau gögn um málið sem væru til í ráðuneytinu færu víða, meðal annars til undirstofnana ráðuneytisins, lögmanna, Rauða krossins og fleiri, þá hafi hún verið að ýja að því að starfsfólk á þessum stöðum auk lögmanna gætu hafa gerst brotleg gegn þagnarskyldu. „Slíkar yfirlýsingar hljóta að teljast alvarlegar af hálfu ráðherra og meiðandi fyrir hlutaðeigandi aðila.“