Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur verið upplýst um það að sjóðurinn geti ekki tekið þátt í þriðju neyðarlánaveitingunni til Grikklands. Financial Times greinir frá þessu, en miðillinn hefur undir höndum fundargerð stjórnarfundar AGS sem fór fram í gær. Ástæðan er sú að skuldir Grikkja eru svo háar og þeir hafa ekki sýnt fram á það hingað til að þeir geti framfylgt áætlunum um umbætur.
Starfsfólk sjóðsins upplýsti stjórnina um þetta á tveggja klukkustunda fundi í gær. Sjóðurinn mun taka þátt í viðræðum um neyðarlánapakkann, sem nú fara fram í Aþenu, en hann mun ekki ákveða hvort hann tekur þátt í nýjum aðgerðapakka fyrr en eftir einhverja mánuði og mögulega ekki fyrr en á næsta ári.
Það verður engin ákvörðun tekin fyrr en á næsta stigi málsins, eftir að Grikkir hafa ráðist í miklar umbætur, og einnig eftir að lánardrottnar þeirra á evrusvæðinu hafa komið sér saman um niðurfellingu á skuldum Grikkja. Sjóðurinn hefur ítrekað sagt undanfarnar vikur að fella þurfi niður skuldir Grikkja til þess að gera þær sjálfbærar, en evruríkin eru mótfallin slíkri niðurfellingu. Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur sagt oftar en einu sinni að það sé ekki hægt að fella niður skuldir í myntbandalagi.
Þetta gæti haft verulegar afleiðingar í för með sér, sérstaklega í Þýskalandi þar sem talið er ólíklegt að neyðarlánaveiting verði samþykkt af þinginu án þess að AGS sé með í pakkanum.