Ekki er líklegt að landsframleiðsla Íslands árið 2026 nái því marki sem langtímahagspár gerðu ráð fyrir áður en faraldurinn skall á samkvæmt nýrri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á stöðu íslenska hagkerfisins.
Í úttektinni, sem birtist á vef Seðlabankans í gærkvöldi, er búist við hóflegum efnahagsbata á næstunni, en að hann verði einungis drifinn áfram af stuðningsaðgerðum ríkisstjórnarinnar í peningamálum og ríkisfjármálum.
Allt að fjögur ár fyrir ferðaþjónustuna að ná bata
Að mati sjóðsins verður framlag utanríkisviðskipta til hagkerfisins jákvætt, þar sem búist er við nokkrum vexti í útflutningu áls og sjávarafurða. Hins vegar er AGS ekki bjartsýnn á að mikill bati náist skjótt í ferðaþjónustunni og vísar hann á spár ferðamálastofu Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) um að það taki tvö og hálft til fjögur ár fyrir ferðaþjónustuna að verða jafnstór og hún var árið 2019 á heimsvísu.
Samkvæmt sjóðnum benda söguleg gögn frá fyrri faröldrum, líkt og faraldri SARS-veirunnar árið 2003 og svínaflensunnar árið 2009, að virðisaukinn í ferðaþjónustu muni haldast minni í mörg ár eftir að yfirstandandi faraldri lýkur.
Eldgos og áhættufælni gæti dregið úr bata
AGS bætir við að mikil áhætta sé á að hagvöxturinn verði enn minni en spár gera ráð fyrir vegna fjölda óvissuþátta. Þeirra á meðal er þróun heimsfaraldursins, en einnig gæti verið að óvissuástandið sem honum fylgir muni leiða til aukinnar áhættufælni, bakslag í alþjóðavæðingu, aukinnar spennu í þjóðfélaginu og óstöðugleika í stjórnmálum. Einnig segir sjóðurinn að íslenska hagkerfið sé berskjaldað gagnvart náttúruvám og nefnir þar sérstaklega eldgosið í Geldingadölum.
Sökum hægs endurbata í ferðaþjónustu telur AGS að hagkerfið muni ekki ná sömu stærð og árið 2019 fyrr en á næsta ári og að slakinn í landsframleiðslu muni ekki hverfa að fullu fyrr en eftir árið 2026. Þangað til mun landsframleiðslan hér á landi á föstu verðlagi verða undir langtímaspám sem gerðar voru áður en faraldurinn skall á.